Friðrik Ómar hefði sjálfur kosið Hatara

Mynd:  / 

Friðrik Ómar hefði sjálfur kosið Hatara

05.03.2019 - 16:24

Höfundar

Söngvarinn Friðrik Ómar Hjörleifsson sem lenti í öðru sæti í nýafstaðinni Söngvakeppni RÚV með lagið sitt, Hvað ef ég get ekki elskað?, segir að hann hefði kosið Hatara hefði hann ekki sjálfur verið að keppa.

Friðrik Ómar var spurður að því í morgun hvað maður gerði þegar maður tapar í Söngvakeppninni en Friðrik laut í lægra haldi fyrir hljómsveitinni Hatara í einvígi lokakeppninnar á laugardagskvöld. „Maður leggst bara upp í rúm og grætur sig í svefn. Nei nei, þetta var einstaklega skemmtilegt ferðalag. Fjórða skiptið sem ég tek þátt í Söngvakeppninni á þrettán árum og ég var einmitt að fatta það núna að ég hef verið afskaplega lánsamur með lög og samstarfsfólk í þeim atriðum, því ég hef alltaf lent í þriðja, öðru eða fyrsta sæti. Og núna annað sæti. Bara mjög góð tilfinning,“ segir Friðrik Ómar sem ræddi við Sigurlaugu Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 í morgun. Friðrik ræddi þar upplifun sína síðustu daga, lagið sitt og söguna á bak við þetta ferðalag.

Þegar leið á keppnina virtust tvö lög fá meiri athygli en önnur, lag Friðriks Ómars og lag Hatara sem enduðu svo í einvígi um hvort yrði framlag Íslands í Tel Aviv. „Svo virtist sem valið hafi verið frekar augljóst einhvern veginn, að við yrðum að keppa um þetta, fyrir nokkrum vikum síðan. Maður heyrði þann orðróm á götum úti en maður er aldrei viss. Svo bara gerist þetta einhvern veginn. Það er auðvitað ótrúlegt hvernig þessi keppni er, þegar allt í einu er þetta keppni milli ástar og haturs, öllu stillt upp þannig. Þessi keppni er svo mikið ólíkindatól. Það er það sem er svo gaman við hana,“ segir Friðrik Ómar.

Friðrik segir að þó keppnin hafi verið hörð hafi ríkt mikill kærleikur og vinskapur meðal keppenda. „Það var svo yndislegt að stuðningsmenn Hatara í salnum, þeir héldu allir á plakötum með myndum af mér og það var svo mikill kærleikur líka í gangi,“ segir Friðrik sem vill einnig meina að framkvæmdin og umgjörð Söngvakeppninnar hafi verið með miklum sóma. „Við erum svo mikið á réttri leið með keppnina finnst mér, að gera þessa fjölskylduskemmtun í Laugardalshöll og svona, því að það er svo mikil gleði í kringum þetta.“

En hvað hefði Friðrik sjálfur kosið hefði hann ekki sjálfur verið með lag í keppninni í ár? Hefði hann kosið Hatara? „Já, ég hefði gert það. Mér finnst þetta vera, á þessum tímapunkti, það eina rétta í stöðunni. Það er einhver ferskur andvari í gangi og ég held að það verði rosalega gaman að fylgjast með þeim. Þetta eru rosalega klárir drengir og mér fannst gaman, sem mikill Eurovision-maður að sjá hvað þeir höfðu hugsað marga leiki fram í tímann,“ segir Friðrik Ómar.

Viðtal Sigurlaugar við Friðrik Ómar má hlusta á í heild sinni hér