Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Friðlýsing skerði nýtingu jarðhita við Jökulsá

28.01.2019 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Sveitarstjórn Norðurþings gerir alvarlegar athugasemdir við tillögu að friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Samkvæmt tillögunni verði ómögulegt að byggja upp hitaveitu eða nýta með öðrum hætti jarðhita á bökkum Jökulsár í Öxarfirði. Tæplega 30 umsagnir bárust vegna tillögunnar.

Aðaltilgangur friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum er að vernda ána frá tveimur mögulegum stórvirkjunum; Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun. Lagt er til að verndarsvæðið verði vatnasvið árinnar ofan fyrirhugaðra stíflumannvirkja Arnardalsvirkjunar og meginfarvegurinn þar fyrir neðan til sjávar. Þar með talið allt að 100 metra breitt belti út fyrir heildarbreidd farvegarins. Innan marka verndarsvæðisins megi hvorki veita leyfi til orkurannsókna né orkuvinnslu.

Friðlýsingin megi ekki skerða orkuvinnslu í Öxarfirði

Það bárust 27 athugasemdir við tillögu að friðlýsingu Jökulsár, þar á meðal frá sveitarstjórn Norðurþings. Þar koma fram áhyggjur af því að friðlýsingin óbreytt geti útilokað nýtingu á jarðhita í Bakkahlaupi í Öxarfirði, við ósa Jökulsár á Fjöllum. „Það er mikilvægt að draga það fram að þessi friðlýsing á Jökulsánni nái ekki til annarrar orkuvinnslu þarna neðarlega í sandinum," segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Áætlað að nýta heitt vatn í hitaveitu og gufuvirkjun

Áformað hefur verið að nýta heitt vatn úr borholum á þessu svæði fyrir hitaveitu í Kelduhverfi og gufuaflsvirkjun í Bakkahlaupi. Því segir Kristján að sveitarstjórn vilji hafa með það að segja að friðlýsing sem eigi að útiloka að tilteknar vatnsaflsvirkjanir verði reistar í Jökulsá nái ekki út fyrir það og skerði aðra kosti til nýtingar. „Það er bara það sem þarf að tryggja," segir hann.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV