Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Friðlýsing hafi meiri langtímaáhrif en virkjun

18.01.2019 - 23:28
Í nýrri skýrslu er lagt til að Drangajökulsvíðerni verði friðlýst í stað þess að ráðast í gerð Hvalárvirkjunar. Skýrsluhöfundur segir að friðlýsing skapi störf til framtíðar sem virkjunin geri ekki. Þá séu víðernin aðdráttarafl þar sem þau séu þverrandi auðlind.

Skýrslan unnin fyrir ný náttúruverndarsamtök

Ný náttúruverndarsamtök Ófeig náttúruvernd, sem hefur það að markmiði að standa vörð um víðerni, fossa og stöðuvötn á Ófeigsfjarðarheiði, létu vinna skýrsluna og er markmið hennar að bera saman áhrif á samfélagsleg, umhverfi og menningarminjar með því að friðlýsa Drangajökulsvíðerni, reisa Hvalárvirkjun eða aðhafast ekkert. Friðlýsing á þessum slóðum hefur verið til umræðu um nokkurt skeið en ekki verið tekin til samanburðar við aðra möguleika á nýtingu svæðisins.

Friðlýsing betri fyrir samfélag og umhverfi

Skýrslan er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Environice. „Helstu niðurstöðurnar eru þær að til langs tíma litið er jákvæðara fyrir samfélagið og umhverfið að friðlýsa Drangajökulsvíðerni, það er að segja Drangajökul og umhverfi hans og víðernin þar í kring heldur en að nota þau til orkuvinnslu,“ segir Stefán Gíslason, skýrsluhöfundur og umhverfisstjórnunarfræðingur hjá Environice.

Störf til langaframa

Fyrir samfélagið þá laði friðlýsing til sín ferðamenn sem fylgi störf til langframa. „Rannsóknir hafa sýnt það friðlýst svæði laða til sín ferðamenn,“ segir Stefán. Það sé þó erfitt að sjá fyrir hvernig ferðamönnum mun fjölga eða hvernig hegðan þeirra verður, hversu lengi þeir dvelja eða hversu miklu þeir eyða á svæðinu. Friðslýsingu og ferðamennsku fylgi uppbygging innviða og viðhald þeirra.

Störf á framkvæmdatíma en ekki til langframa

„Ef við lítum á virkjunina, hvaða áhrif hún hefur á samfélagið, þá hefur hún fyrst og fremst áhrif til skamms tíma. Hún hefur jákvæð áhrif á tekjur sveitarfélagins,“ segir Stefán. Búist er við því að fólki fjölgi á framkvæmdatíma en ekki eftir að framkvæmdum lýkur. „Þegar frá líður þá verður lítið eftir, því að virkjunin skapar ekki störf, að því að manni virðist, það er ekkert sem bendir til þess að hún skapi störf eftir að framkvæmdum lýkur. Þannig að í rauninni þá stendur samfélagið jafn berskjaldað eftir, nema hvað sveitasjóður stendur betur að vígi tímabundið.“

Virkjun og friðlýsing fari ekki saman

Í skýrslunni kemur fram að virkjun og friðlýsing geti ekki farið saman. „Það er ekki mín niðurstaða, friðlýsing er skilgreind þannig,“ segir Stefán. „Það er ekkert svigrúm í forsendum friðlýsingar til að vera með orkuvinnslu á sama stað. Það er hægt í einstaka tilvikum, eins og í fólkvöngum þá þekkist það. Annars þekkist það ekki og það er ekki gert ráð fyrir því, hvorki í löggjöfinni né í viðmiðum alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN sem skilgreinir viðmið fyrir friðlýst svæði,“ segir Stefán.

Víðerni þverrandi auðlind

Í skýrslunni er lagt til að svokölluð Drangajökulsvíðerni, um tólf hundruð ferkílómetrar sem ná allt  frá Steingrímsfjarðarheiði í suðri að mörkum Hornstrandafriðlandsins í norðri og eru um eitt prósent af Íslandi. „Þetta er stærsta víðerni utan Vatnajökuls. Víðerni eru svona þverrandi auðlind í Evrópu og hafa sífellt meira aðdráttarafl, þarna eru líka rannsóknarhagsmunir, þarna er merkileg jarðfræði, menningarminjar og þetta er hluti af heild þar sem menningin og náttúran mynda eina heild. Þetta er jaðarinn á eyðibyggðinni sem að skapar tækifæri bæði í ferðamennsku og rannsóknum.“   

Kostur til að skoða

Árneshreppur vinnur nú að skipulagsbreytingum í sveitarfélaginu fyrir undirbúningsframkvæmdir Hvalárvirkjunar sem felast í veglagningu og rannsóknum en skipulagsbreytingar og fyrirhuguð virkjun hefur valið deilum innan og utan sveitarfélagins. „Ef þetta er jákvæðara fyrir samfélagið þá er þetta náttúrlega kostur sem á að skoða. Menn standa frammi fyrir erfiðu vali hvernig á að nýta þetta svæði. Hvernig ætlarðu að nýta auðlindirnar sem eru á þessu svæði og þarna eru komnir fram tveir valkostir,“ segir Stefán. „Og þegar eitthvert stjórnvald stendur frammi fyrir svona vali skiptir miklu máli að hafa sem mestar upplýsingar á borðinu,“ skýrslan sé því innleg í umræðuna.