Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fréttabörn segja vel hafa tekist til

22.11.2019 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Börn ganga í hlutverk fréttafólks á barnaþingi sem haldið er í Hörpu í dag. Unga fréttafólkið sér um að miðla upplýsingum til almennings af þinginu. Þau taka myndir, viðtöl við þátttakendur þingsins, og halda umræðunni lifandi á samfélagsmiðlum. Eiður Axelsson, einn þeirra sem sinnir hlutverkinu, segir mikla ábyrgð fylgja fjölmiðlahlutverkinu. Þingið hafi verið frábært í alla staði.

Unga fréttafólkinu er ætlað að auka áhrif barna á þinginu, segir í tilkynningu frá Umboðsmanni barna. Fréttamennirnir eru á aldrinum tólf til átján ára og tilheyra ráðgjafarhópi Umboðsmanns barna.

Kann vel við sig í hlutverki fjölmiðla

„Mér finnst hafa gengið mjög vel, bæði börn og fullorðnir voru virkir þátttakendur og ráðgjafahópurinn hefur verið duglegur við að hjálpa til og aðstoða á þinginu,“ segir Vigdís Sóley Vignisdóttir, 17 ára nemandi við Menntaskólann við Hamrahlíð og ráðgjafi í ráðgjafarhópnum. 

Hún sá um Instagram-síðu UngRúv og segir það hafa gengið rosalega vel og betur en hún átti von á. „Ég svaraði innsendum spurningum á Instagram og við tókum viðtöl við ráðherra, börn sem tóku þátt í þinginu og sýndum einnig frá því.“ Hún segist kunna vel við sig í fjölmiðlahlutverkinu sem eigi vel við hana.

Síminn hefur ekki stoppað

„Það er búið að vera alveg brjálað að gera. Ég var með símann á lofti í allan dag,“ segir Eiður Axelsson, 15 ára nemandi í Sæmundarskóla og ráðgjafi í ráðgjafarhópnum. Hann sá um Instagram-síðu Umboðsmanns barna. „Maður fær annað sjónarhorn á þingið og stemninguna í þinginu í gegnum myndavélina og það var alveg rosalega gaman.“

Hann segist almennt ekki vera virkur á samfélagsmiðlum. Því hafi fjölmiðlunin verið ákveðin áskorun til að bæta úr því. Sjálfur stefnir hann á feril í stjórnmálum og segir samfélagsmiðla vera mikilvægan þáttur í því. Hann hefur þegar hafið undirbúning að ferlinum og stefnir á að vera kominn á þing árið 2025. Markmiðið er svo sett á embætti utanríkisráðherra. 

Röð atvika leiddi til þátttöku í ráðgjafarhópnum

Í ráðgjafarhóp Umboðsmanns barna fá börn vettvang þar sem þau geta komið saman, komið skoðunum sínum á framfæri og haft áhrif á málefni sem skipta þau máli í samfélaginu, segir í tilkynningunni.

Vigdís hefur verið ráðgjafi í um þrjú ár. „Ég ákvað að skrá mig í hópinn þar sem ég hef svo mikinn áhuga á réttindum barna og þar sem mér finnst þetta vera svo góð reynsla fyrir framtíðina.“ 

Eiður segir að röð atvika hafi leitt til þess að hann ákvað að taka þátt í ráðgjafarhópnum. „Ég varð fyrir einelti í skóla og var ekki sáttur við hversu lítið var gert í því og ekki tekið á málunum. Það varð til þess að ég fór að berjast fyrir bættu skólakerfi og réttindum fatlaðra barna sem leiddi svo til þess að ég sótti um í ráðgjafarhópnum nú í mars.“

Markmiðið að efla lýðræðislega þátttöku barna

Markmið þingsins er að efla lýðræðislega þátttöku barna og gefa þeim tækifæri til þess að ræða málefni sem eru þeim mikilvæg. Áhersla er lögð á að þingið sé haldið á forsendum barna og þau komi að skipulagi og framkvæmd þess. Í tilkynningunni segir að niðurstöður þingsins verði afhentar forsætisráðherra og kynntar ráðherrum úr ríkisstjórn. Þær verði mikilvægt framlag í stefnumótun ríkisins um málefni barna.

Barnaþingið var sett í gær í Hörpu. Í dag var svo haldinn þjóðfundur barna og fullorðinna. Um 150 börn af öllu landinu, sem valin voru með slembiúrtaki úr Þjóðskrá, koma saman á þinginu, ásamt fullorðnum þátttakendum af Alþingi, úr sveitastjórnum, atvinnulífinu og frjálsum félagasamtökum.

Hægt er að fylgjast með umfjölluninni á Facebook- og Instagramsíðu Umboðsmanns barna og Instagramsíðu UngRúv.