Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Frétt um stjórnarslit mest lesin víða um heim

15.09.2017 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Grafík
Stjórnarslitin hér á landi eru meðal mest lesnu frétta á fjölmörgum erlendum vefmiðlum. Þar er því víða slegið upp að enn og aftur ríki stjórnarkreppa á Íslandi.

Panamaskjölin og efnahagshrunið hér á landi eru víða rifjuð upp í umfjöllun erlendra fjölmiðla um stjórnarslitin hér á landi. Þar er einnig greint frá því að krónan hafi veikst eftir að fréttir af stjórnarslitunum bárust.

Frétt um stjórnarslitin hefur verið á forsíðu fréttavefs breska ríkisútvarpsins í nær allan dag. Þar er því slegið upp að reiði vegna barnaníðings hafi sprengt ríkisstjórnina. 

Ein mest lesna fréttin á vef The Guardian í dag er um stjórnarslitin. Þar segir að Íslendingar standi nú í annað sinn á skömmum tíma frammi fyrir þingkosningum, eftir ásakanir um að reynt hafi verið að leyna aðkomu föður forsætisráðherra að því að dæmdur barnaníðingur fékk uppreist æru.

Á fréttavef The New York Times er fjallað um að krónan hafi veikst um eitt prósent gagnvart evru og dollara eftir að fréttir af stjórnarslitunum bárust.

Norrænir fjölmiðlar fjalla einnig talsvert um ákvörðun Bjartrar framtíðar; um aðkomu Benedikts Sveinssonar, föður forsætisráðherra, að uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar og einnig hve oft Íslendingar hafi þurft að ganga að kjörborðinu undanfarin misseri.

Norska ríkssjórnvarpið er einn þeirra miðla sem rifjar upp hve langan tíma það tók að mynda ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og einnig hvers vegna gengið var til kosninga í fyrra, fyrr en áætlað var.

Uppreist æru er í einhverjum fréttanna kölluð sakaruppgjöf og jafnvel náðun. Þá er Benedikt Sveinsson á einhverjum stöðum spyrtur saman við mál Roberts Downeys, en ekki Hjalta.

Birting Panamaskjalanna og efnahagshrunið árið 2008 kemur einnig talsvert við sögu í umfjöllun erlendra fjölmiðla í dag og því er víða slegið upp að enn og aftur ríki stjórnarkreppa á litla Íslandi.