Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Frétt um Menn í vinnu ekki brot á siðareglum

11.02.2019 - 21:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks, Helga Seljans og Kastljóss um starfsmannaleiguna Menn í vinnu hafi ekki brotið gegn siðareglum BÍ. Starfsmannaleigan kvartaði einnig til Fjölmiðlanefndar sem hafnaði kröfum hennar en fyrirtækið er nú aftur komið í kastljós fjölmiðla.

Fram kemur í úrskurði síðanefndarinnar að forsvarsmenn Manna í vinnu hafi sent ítarlegt kærubréf í tíu tölusettum liðum þar sem gerðar voru athugasemdir við umfjöllun um fyrirtækið. 

Siðanefndin segir að allnokkrir úrskurðir hafi í áranna rás undirstrikað „að það er hlutverk fjölmiðla að greina frá því sem miður fer í samfélaginu.“ Það eigi  fullt erindi til almennings að fjalla um meðferð á erlendum farandverkamönnum af hálfu íslenskra fyrirtækja og meint brot á lögum og reglum. Það sé mikilvægt hlutverk fjölmiðla að veita slíkum aðilum aðhald. Þá bendir siðanefndin á að fyrirtækinu hafi gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. 

Siðanefndin telur að Kveikur hafi viðhaft viðunandi fagleg vinnubrögð þó að í einhverjum atriðum hafi gætt nokkurrar ónákvæmni í lýsingum og orðalag viðhaft sem hægt væri að flokka sem óljóst og hefði mátt setja skýrar fram.  Þetta væru þó atriði sem ekki væri hægt að telja siðareglubrot. 

Forsvarsmenn Manna í vinnu kvörtuðu einnig til Fjölmiðlanefndar vegna umfjöllunar Kveiks.  Þar var farið fram á skriflega afsökunarbeiðni auk þess sem krafist var að öll umfjöllun um fyrirtækið yrði tekin af vef RÚV. Ef ekki yrði orðið við kröfu fyrirtækisins myndi það senda öllum helstu miðlum landsins tilkynningu þess efnis ásamt öllum sönnunum sem áttu að sýna „fram á rógburð RÚV.“  Fjölmiðlanefnd taldi að RÚV hefði verið heimilt að synja fyrirtækinu um andsvar vegna umfjöllunar um það í Kveik.

Starfsmannaleigan er nú aftur komin í kastljós fjölmiðla í tengslum við  umfjöllun fjölmiðla um rúmenska verkamenn. ASÍ ásamt lögreglu fóru að skoða aðstæður hjá þeim fyrir skömmu en þeir bjuggu allt að tíu saman við mjög þröngan kost í Kópavogi.  Efling hefur kjaramál mannanna til skoðunar og er að afla gagna til þess að ganga úr skugga um að þeir hafi fengið rétt laun fyrir sína vinnu.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, lýsti í fréttum RÚV vanþóknun sinni á þeirri meðferð sem rúmensku verkamennirnir hefðu mátt þola og Drífa Snædal, forseti ASÍ, var harðorð í pistli sem hún birti á vefsíðu Alþýðusambandsins eftir umfjöllunina. „Þetta er ekki einsdæmi og því miður berast örugglega ekki öll svona mál til okkar því margir fara til síns heima aftur eftir að hafa verið beittir atvinnuofbeldi,“ skrifaði Drífa.