Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fresta fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarfulltrúum Reykjavíkurborgar verður ekki fjölgað á næsta kjörtímabili. Borgin er skyldug til þess samkvæmt lögum en ætlar að nýta sér heimild í lögum til að fresta þeirri fjölgun um fjögur ár. Tvö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa ákveðið að fjölga bæjarfulltrúum.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi fyrir tveimur árum þurfa sveitarfélög með yfir hundrað þúsund íbúa að hafa 23 til 31 fulltrúa í sveitarstjórn. Reykjavík, eina sveitarfélagið sem er yfir þessum mörkum, er með fimmtán borgarfulltrúa, átta færri en þarf að lágmarki samkvæmt lögunum. Tillaga verður lögð fram í borgarstjórn í dag um að borgarfulltrúum verði ekki fjölgað á næsta kjörtímabili. Þar er vísað í bráðabirgðaákvæði í lögunum þess efnis að ekki sé skylt að breyta fulltrúafjölda í sveitarstjórnarkosningum fyrr en við aðrar kosningar frá gildistöku laganna, sem sagt við kosningarnar 2018. Það ákvæði ætlar borgin að nýta sér.

Tvö önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu höfðu áður ákveðið að fjölga bæjarfulltrúum. Ríflega þrettán þúsund manns búa í Garðabæ, en þar fjölgar bæjarfulltrúum úr sjö í ellefu. Fyrir því er lagaskylda þar sem sveitarfélög með tíu til fimmtíu þúsund þúsund íbúa þurfa að hafa ellefu fulltrúa í sveitarstjórn að lágmarki. Mosfellsbær hefur einnig ákveðið að fjölga bæjarfulltrúum sínum úr sjö í níu á næsta kjörtímabili. Þar búa hins vegar um níu þúsund manns og því var ekki þörf á þeirri fjölgun samkvæmt lögunum.

En ekki þurfa öll sveitarfélög að breyta fjölda fulltrúa vegna laganna. Kópavogur, Hafnarfjörður og Akureyri, sem eru innan sömu íbúafjöldamarka og Garðabær, eru öll með ellefu bæjarfulltrúa. Því þarf ekki að fjölga bæjarfulltrúum þar og eftir því sem fréttastofa kemst næst er lítil sem engin umræða í þessum sveitarfélögum um slíkt.