Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Frederiksen fær umboðið

06.06.2019 - 17:51
epa07628869 Opposition leader Mette Frederiksen of The Danish Social Democrats looks on after the election results are released during the Parliamentary Elections at Christiansborg Castle in Copenhagen, Denmark, 05 June 2019.  EPA-EFE/HENNING BAGGER  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Mette Frederiksen, leiðtogi danskra jafnaðarmanna, fékk í dag umboð drottningar til að leiða stjórnarmyndunarviðræður. Hún hyggst ræða við alla flokka.

Fulltrúar þeirra dönsku flokka sem náðu inn á þing í kosningunum í gær streymdu í dag á fund Margrétar Þórhildar drottningar og ræddu hver ætti að stýra myndun nýrrar ríkisstjórnar. Mette Frederiksen, leiðtogi jafnaðarmanna, stærsta flokksins á þingi, naut mestrar hylli og reynir því fyrir sér fyrst, fær að stýra konunglegri skoðun á myndun nýrrar ríkisstjórnar, eins og það nefnist í Danmörku. 

Forsætisráðherraefni jafnaðarmanna sagði að ekkert í stjórnmálum væri auðvelt, sérstaklega þegar kæmi að stjórn landsins, staðreyndin væri þó sú að kjósendur hefðu veitt rauðu blokkinni skýrt umboð til að láta til sín taka og leggja áherslu á loftslagsmál og velferð.

Frederiksen sagði að fram undan væru viðræður við flokkana um myndun ríkisstjórnar en mikilvægast væri að ræða hvert innihaldið yrði í samstarfinu á kjörtímabilinu. Hún ætlar að kalla alla flokkana á þingi til viðræðna, í stærðarröð og því verður fráfarandi forsætisráðherra, Lars Lökke Rasmussen fyrsti viðmælandi hennar.