Francois Fillon í vandræðum

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Francois Fillon, sem hlaut mest fylgi hægrimanna í forkosningum fyrir frönsku forsetakosningarnar, á nú undir högg að sækja vegna ásakana um að eiginkona hans hafi þegið laun frá hinu opinbera fyrir störf sem hún innti ekki af hendi.

Ásakanir í Le Canard Enchaîné

Það var háðsádeilublaðið Le Canard Enchaîné eða Hlekkjaða öndin, sem upplýsti að Penelope Fillon hafi fengið rúmlega 60 milljónir króna fyrir starf sem aðstoðarmaður Fillons í þinginu. Rannsókn er hafin á hvort starfið hafi verið búið til til málamynda, og þannig hafi verið misfarið með almannafé.

Fillon neitar

Francois Fillon harðneitar að nokkuð sé hæft í staðhæfingum Hlekkjuðu andarinnar. Hann kveðst hneykslaður á greininni sem beri merki kvenfyrirlitningar. ,,Má hún ekki vinna af því að hún er eiginkona mín?“ spurði Fillon í sjónvarpsviðtali. Hann bætti við að eitthvað myndi heyrast í femínistum ef stjórnmálamaður staðhæfði eins og Le Canard Enchaîné að hún mætti aðeins stunda sultugerð.

Málið gæti skaðað Fillon

Fréttaskýrendur segja að leiði rannsókn í ljós að Penelope Fillon hafi þegið laun fyrir málamyndastarf muni málið skaða Fillon mikið. Fillon nýtur nú mests fylgis frambjóðenda fyrir kosningarnar sem verða í apríl og hefur forskot á bæði Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar, Front National, og Emmanuel Macron, fyrrverandi ráðherra í stjórn Sósíalista.
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi