Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framtíðin er kvenkyns

Mynd: Us By Design / Madame Ghandi

Framtíðin er kvenkyns

04.11.2019 - 16:34

Höfundar

Kiran Ghandi eða Madame Ghandi eins og hún kallar sig er tónlistarkona, aðgerðasinni og virkur þátttakandi í fjórðu bylgju femínismans. Hún kemur fram á Iceland Airwaves í vikunni og hefur einsett sér að koma íslenskum tónlistarkonum þar á framfæri.

Madame Ghandi er margt til lista lagt. Hún er raftónlistarupptökustjóri, trommuleikari, listakona og aðgerðasinni. Gandhi er fædd árið 1989 og ólst upp bæði í New York í Bandaríkjunum og Bombay á Indlandi, og útskrifaðist úr Harvard með gráðu í viðskiptafræði. Hún er einnig þekkt fyrir að hafa hlaupið maraþon árið 2015 en hún segir á heimasíðu sinni: „Ég hljóp allt maraþonið með tíðablóð rennandi niður fótleggina. Ég byrjaði á blæðingum um morguninn, sem var alger hörmung en ég gat ekki séð fyrir mér að vera með túrtappa í hlaupinu, það yrði alltof óþægilegt, að vera að spá í það allar 26,2 mílurnar. Ég hugsaði með mér að ef það væri einhver ein manneskja sem samfélagið myndi ekki vesenast í, þá væri það maraþonhlaupari. Þetta er ein leið til að ganga þvert á kúgun, að hlaupa maraþon með þeim hætti sem þú vilt."

Tónlist sem vettvangur til að fjalla um kynvitund

Tónlistarferill hennar felur meðal annars í sér að vera trommari fyrir tónlistarkonur eins og M.I.A., Thievery Corporation og Kehlani. Tónlist Gandhi og aðgerðir beinast að mestu leyti að valdeflingu kvenna. Hún hefur gefið út eina þröngskífu og nokkrar smáskífur og hennar þekktasta lag til þessa er lagið The Future Is Female. Hún hefur komið fram á tónlistarhátíðum eins og Pitchfork, Lightning in a Bottle, Hróarskeldu, SXSW og hana hefur lengi langað til að spila á Iceland Airwaves. 

Ég hringdi í hana seinni part fimmtudags að íslenskum tíma og hún svaraði mér snemma að morgni en hún býr í Los Angeles. Það lá vel á henni og við fórum um víðan völl. Ég byrjaði á því augljósa, hennar helsta umfjöllunarefni, konum og tónlist.  

„Frá því að ég var barn var það alltaf tónlistin sem talaði til mín fyrst. Ég er þeirrar skoðunar að tónlist og poppmenning hefur áhrif sem móta kynvitund fólks og staðsetja það í heiminum og þess vegna er tónlist góð leið til miðlunar. Tónlist hefur áhrif á tilfinningar okkar, vekur upp samkennd, leyfir þér að sjá og heyra lífssögu annars fólks, þess vegna er tónlist góður vettvangur til að tala um kynvitund.”

Mynd með færslu
 Mynd: Rikki Wright

Mikilvægt að leita viljandi til kvenna

Madame Ghandi hefur lagt mikla áherslu á að koma konum í tónlist á framfæri og því spurði ég hana hvort hún hafi séð einhverja breytingu frá því hún byrjaði og þá hverja. Hún sagðist klárlega sjá miklar breytingar en innan tónlistargeirans sé engu að síður meðvitundarlaus hlutdrægni. „Segjum sem svo að ég væri að leita að gítarleikara fyrir sýninguna mína á morgun, nöfnin sem fólk myndi benda mér til væru Bob og Bill og Michael og Harry. Ég myndi ekki sjá nein kvennöfn á listanum, ekki vegna þess að einhver sé að reyna að útiloka konur viljandi heldur vegna þess að skynjun okkar er að þessi hlutverk séu venjulega fyrir karla og því held ég að það sé mikilvægt að leita viljandi til kvenna og fólks sem skilgreinir sig ekki, transfólks og hópa sem yfirleitt gleymast.”

Hins vegar segir hún að ýmislegt sé í vinnslu til að sporna gegn þessari þróun og nefndi meðal annars samstarf Grammy-verðlaunanna og Aliciu Keys, sem hófu átak í Bandaríkjunum, sem kallast „Hún er tónlistin“, herferð sem auglýsir viljandi eftir konum og kemur þeim á framfæri, í þeim hópi sem er oftast á bak við tjöldin í tónlistarheiminum, en aðeins 2% pródúsenta og upptökustjóra heimsins eru konur. Þá hefur Spotify einnig hleypt af stokkunum svonefndu jöfnunarverkefnið þar sem gerð er gagnaskrá yfir allt tónlistarfólk sem er ekki sís karlmenn. Þá setja margar tónlistarhátíðir þessa dagana konur og kynsegin fólk á lista hjá sér.

„Við verðum að byrja á okkur sjálfum“

Ég minntist á að hér á landi væri þetta vandamál eins og víða annars staðar og minntist á Reykjavíkurdætur, en þær voru og hafa verið mikið hitamál síðustu misseri og tjáði hún mér þá að á tónleikunum hennar hér muni hún aðeins koma fram með íslenskum konum. „Við munum setja saman hljómsveit af íslenskum tónlistarkonum, hljómsveitin er enn að myndast, en hugmyndin er að ég ætla að koma nokkrum dögum áður og æfa með sveitinni svo við getum komið fram fyrir Iceland Airwaves.“

Ghandi samdi lag sem heitir Bad Habits og ég spurði hana hvort það fjallaði um hennar eigin siði eða meira almennt, siði samfélagsins og hún sagði það fjalla um hvort tveggja. „Ég held að tilgangurinn með Bad Habits hafi verið, eins og gert er margoft í aðgerðahreyfingum, ef við erum að reyna að knýja fram breytingar í heiminum verðum við að byrja á okkur sjálfum. Þannig að eitt af því sem ég get gert er að gera það sem ég get til að þjóna samfélaginu mínu. Og einfaldari hlutirnir eru bara, ég er alltaf sein og ég get alltaf unnið að því að stjórna þolinmæði minni, stundum er ég mjög óþolinmóð, ég er spennt fyrir einhverju og ég vil að það gerist NÚNA,” segir Gandhi og flissar. „Mig langar alltaf að borða hollari mat, á Íslandi er svo gómsætur matur, þið ert með svo ferskar rauðrófur og rabarbara, og ég get ekki beðið eftir skyrinu!” segir hún spennt en hún þekkir íslenskan mat vel enda hefur hún snætt hann áður. 

Þetta er ekki hennar fyrsta heimsókn hennar hingað til lands, en hún kom hingað fyrir nokkrum árum og kveðst eiga vinkonu frá Íslandi. Hún reyndi að bera nafnið fram og tókst nokkuð vel til, en hún og Halla Tómasdóttir fyrrum forsetaframbjóðandi voru saman á forystunámskeiði „og ég fékk þann heiður að geta bara verið í návist hennar og lært af henni og ég var þá að segja henni að svalasta tónlistarhátíðin virðist vera Iceland Airwaves og hún sagði það rétt.”

 

„Forsetinn okkar er fáránlegur“

Ghandi gaf út nýja þröngskífu, Visions, þann 25. október. Ég spurði hana að lokum hvort hún ætlaði sér að sjá einhver atriði. Hún sagði að það besta við Iceland Airwaves, væru allir listamennir sem hún hefur ekki heyrt um og það sé svo spennandi. „Sérstaklega evrópsku hátíðirnar, sem mér finnst alltaf svo miklu tilraunakenndari, þar eru listamenn að troða upp sem ég heyri aldrei um hér í Bandaríkjunum. Forsetinn okkar núna er fáránlegur,” segir hún gröm, „hann hleypir engum inn í landið, það hefur verið hætt við marga tónleika evrópskra listamanna vegna þess að þau geta ekki fengið vegabréfsáritun til að koma og koma fram, sem er áður óheyrt, ég hef aldrei heyrt um þetta áður á ævinni, þetta er mjög nýtt, alla vega eru allir svölu listamennirnir enn þá í Evrópu og ég er mjög spennt að koma og hlusta.”

Madame Ghandi kemur fram í fyrsta skipti á Iceland Airwaves, miðvikudaginn 6. nóvember á Kex Hostel kl. 14.00 og svo föstudagskvöldið 8. nóvember á Hard Rock Café kl. 23.00.

 

Tengdar fréttir

Airwaves

Hirðingjalíferni kvíðins pönkara

Tónlist

Fótboltakona fetaði í fótspor Missy Elliott

Tónlist

Berjast gegn japönskum fegurðarstöðlum