Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Framtíð ljóðsins á netinu

Mynd: Swezy / Swezy

Framtíð ljóðsins á netinu

25.02.2020 - 09:19

Höfundar

Bandaríska skáldið Zachary Swezy gaf nýverið út smátímaritið Mid Magazine sem inniheldur ljóð, myndlist og tónlist eftir ýmsa listamenn sem komust til metorða á netinu. Þórður Ingi Jónsson ræðir við Zachary, sem búsettur er í Chicago, um stöðu kveðskapar í dag á hinum alþjóðlegu ljósvökum.

Þórður ingi Jónsson skrifar:

Fyrsta ljóðabók Zachary Swezy, I Want To Die Now in 300 Years eða Ég vil deyja núna eftir 300 ár, kom út árið 2016. Í fyrra gaf hann út smátímaritið Mid Magazine ásamt samstarfskonu sinni Töru Shafa en það inniheldur ljóð, myndlist og tónlist eftir ýmsa listamenn sem komust til frægðar á netinu. Hinn rauði þráður í ritinu er náttúran en ritið er einungis aðgengilegt á netinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Swezy
Listamaðurinn Sam Rolfes hannaði forsíðu Mid Magazine.

Swezy hafði allt sitt líf haft áhuga á skapandi skrifum en hann fór að stunda tónlistarblaðamennsku upp á eigin spýtur í kringum 2010, þegar mikil gróska var í neðanjarðartónlist á netinu. Þetta var byrjunin á tímabili sem kennt er við tónlistarveituna Soundcloud. Að sögn Swezy tók hann það að sér að taka viðtöl við hina og þessa tónlistarmenn í gegnum netið, þar sem hann taldi þá ekki fá verðskuldaða athygli frá stærri fjölmiðlum.

Á þessum tíma var hugtakið „alt lit“, alternative literature, eða jaðarbókmenntir, notað um þau skáld sem gáfu út verk sín sjálf á netinu. Þessi ljóð voru undir miklum áhrifum af internetmenningar – stíllinn er beinskeyttur og efnið aðgengilegt. Ýmsir í senunni voru undir áhrifum Tao Lin, sem er þekktasta skáldið úr þessari senu.

Swezy gefur reyndar ekki mikið fyrir „alt lit“-senuna. Hann telur hana hafa verið barnalega og einkennst af unglingaveiki. Swezy sjálfur tók ekki þátt í henni, hann var einhvers staðar á jaðrinum. Þegar hann fór að stunda sín eigin skapandi skrif þá hafði hún nokkurn veginn dáið út.

Mynd með færslu
 Mynd: Swezy
Fyrsta ljóðabók Swezys sem kom út árið 2016.

Swezy fannst þó vera einn kostur við þessa stefnu en það var notkun hennar á absúrdisma, sem voru bein áhrif frá tungumáli og skopskyni veraldarvefsins. Það er mikið um kaldhæðni og sjálfstilvísanir. „Internetið heldur góðu jafnvægi milli alvarlegs tóns og þess absúrdíska í heimi okkar, en lætur okkur ekki vilja skjóta okkur í hausinn,” segir hann.

En hvar er eiginlega vettvangurinn fyrir ljóð á netinu í dag? Swezy segir að þökk sé veraldarvefnum séu ljóð núna alls staðar í kringum okkur. Til dæmis telur hann Twitter vera mjög ljóðrænt svæði á netinu. Twitter er ekki aðeins góð síða fyrir grín heldur einnig fyrir fundin ljóð, eða incidental poetry. Það eru einna helst tíst frá yngra fólki sem kljáist við að reyna að tjá tilfinningar sínar og úr verður óvænt ljóðræna.

Swezy segir tilgang ljóða vera að láta mann hugsa um eitthvað ákveðið, rétt eins og tíst á Twitter. Bæði ljóð og tíst grundvallast á því að vera stutt. Hann staðhæfir að bandaríska skáldið Emily Dickinson hefði elskað Twitter.

Þá eru jafnvel bottarnir á Twitter oft mjög ljóðrænir, enda eru bottar stundum nefndir „yrkjar“ á íslensku – gervigreindarforrit sem menn hafa hannað til að tísta. Síðan KierkeKardashian er í miklu uppáhaldi hjá Swezy en þar hefur einhver sniðugur blandað saman bútum úr heimspeki Sören Kierkegaard og tístum frá bandarísku stórstjörnunni Kim Kardashian.

Tæknimenn á sviði gervigreindar hanna nú sífellt kröftugri máltæknivélar með hverjum deginum, til dæmis GPT-2 gervitauganetið sem getur greint gríðarlegt magn af texta og samið nýjan texta á skilvirkan hátt. Þrátt fyrir þetta telur Swezy að gervigreind eigi aldrei eftir að geta gert mennsk ljóðskáld útdauð. Hann hefur þó mikinn áhuga á gervigreindarljóðum og veltir fyrir sér hvernig sambandið verði milli mennskra ljóðskálda og gervigreindar í framtíðinni.