Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Framsóknarmenn gagnrýna valið á Gústafi

21.01.2015 - 10:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra mótmælir skipun Gústafs Níelssonar sem varamanns Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráð Reykjavíkur. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segist ekki skilja ákvörðun borgarfulltrúa flokksins og í sama streng tekur Birkir Jón Jónsson.

Gústaf Níelsson var í gær valinn varamaður í mannréttindaráð Reykjavíkur, sem fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina. Gústaf er flokksbundinn Sjálfstæðismaður og var ekki á lista Framsóknar og flugvallarvina fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Hann hefur opinberlega lýst yfir andstöðu við hjónabönd og ættleiðingar samkynhneigðra, og er meðal þeirra sem líka við síðu PEGIDA á Íslandi, sem eru samtök gegn Íslamvæðingu Evrópu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var ekki eining um kosningu Gústafs í ráðið, og sátu fjölmargir fulltrúar meirihlutans hjá við atkvæðagreiðsluna.

Eygló segir skipan Gústafs óásættanlega. „Gústaf hefur með ítrekuðum hætti lýst viðhorfum sem ganga þvert gegn gildum Framsóknarflokksins, viðhorfum sem endurspegla allt annað en stefnu flokksins um almenn mannréttindi, réttindi samkynhneigðra, innflytjenda og ýmissa minnihlutahópa,“ skrifar Eygló og hvetur borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallavina í Reykjavík til að afturkalla þessa skipan hið fyrsta.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, telur að skipan Gústafs samrýmist ekki gildum flokksins að skipa mann sem talar fyrir mismunun eftir trú og kynferði.  Hann skorar á flokkinn að endurskipa varamann í ráðið og tryggja að sá einstaklingur endurspegli betur grunngildi flokksins. Hann gagnrýnir enn fremur orð Guðfinnu J. Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa flokksins, um að allskonar raddir eigi að hljóma í mannréttindaráði borgarinnar. „Þessi tiltekna rödd endurspeglar ekki gildi Framsóknarflokksins og að mér vitandi er hann ekki skráður í Framsóknarflokkinn og er flokksbundin sjálfstæðismaður að eigin sögn,“ skrifar Gunnar Bragi á Facebook-síðu sinni.

Birkir Jón Jónsson skrifar á Facebook að hann muni aldrei aka þátt í því að sveigja stefnu Framsóknarflokksins að öfgum og fordómum.


Fréttin hefur verið uppfærð.