Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framsóknarkonur fordæma niðurstöðu siðanefndar

18.05.2019 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landssamband Framsóknarkvenna telur niðurstöðu siðanefndar Alþingis þess efnis að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hafi brotið gegn siðareglum með ummælum sínum bera vott af þöggunartilburðum. Þetta kemur fram í ályktun sem sambandið sendi fjölmiðlum í gærkvöldi. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, er sögð hafa brotið gegn siðareglum þingmanna vegna ummæla sem hún lét falla í sjónvarpsþættinum Silfrinu um greiðslur til Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta er niðurstaða siðanefndar Alþingis sem hefur sent forsætisnefnd Alþingis ráðgefandi álit þess efnis. Þórhildur Sunna ætlar að krefjast þess að forsætisnefnd þingsins vísi málinu aftur til siðanefndarinnar.

Í ályktun Framsóknarkvenna segir að stjórn LFK telji mikilvægt að þingmönnum sé veitt svigrúm til að orða og veita stjórnsýslulegt aðhald hvað varðar meðferð þingmaanna á almannafé líkt og Þórhildur Sunna hafi gert og siðanefnd dæmir sem brot á siðareglum. Þá gagnrýna þær að siðanefnd telji ekki ástæðu til að beita sér í að fordæma eða dæma Klaustursþingmenn brotlega gegn siðareglum, í ljósi þess að Þórhildur Sunna dæmist brotleg. 

„Stjórn LFK telur að meint brot Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur sé ómerkt í stóra samhenginu hvað varðar traust almennings á Alþingi. Álit siðanefndar er að mati LFK frekar til þess fallið að Alþingi bíði frekari álithsnekki en ella, “ segir í ályktuninni.