Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Framsóknarflokkurinn með mest fylgi

Mynd með færslu
 Mynd:
Framsóknarflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Fylgi hans mælist tæplega 30 prósent í nýrri fylgiskönnun. Enn dregur úr fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar fylgiskönnunar MMR. Óhætt er að segja að fylgi Framsóknarflokksins sé á miklu flugi. Flokkurinn hlaut tæplega 15% fylgi í síðustu kosningum og hefur nokkrum sinnum á kjörtímabilinu mælst með undir 10% fylgi. Ekki eru nema fimm mánuðir síðan fylgi hans mældist um 11%. Nú þegar mánuður er til kosninga mælist fylgi hans 29,5%. Haldi flokkurinn þessu fylgi fram á kjördag vinnur hann stærsta kosningasigur sinn í sögunni, en hæst flaug fylgi Framsóknarflokksins í Alþingiskosningum á 7. áratug síðustu aldar, þá fékk flokkurinn rúmlega 28% fylgi.

Að sama skapi er fylgishrun Sjálfstæðisflokksins á síðustu mánuðum eftirtektarvert. Flokkurinn mældist með rúmlega 40% fylgi í haust. Nú þegar mánuður er til kosninga er fylgi hans komið niður í 24,4%, sem er nálægt því fylgi sem hann naut í síðustu Alþingiskosningum. Þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn 23,7% atkvæða, sem er versta útkoma flokksins frá stofnun hans.

Fylgi Bjartrar framtíðar minnkar frá síðustu könnun. Það mælist nú 12%. Það var 15,2% í síðustu könnun og fór hæst í byrjun febrúar í tæp 18%.

Samfylkingin mælist með 12,5% fylgi sem er svipað og í síðustu könnun. Þá mælist Vinstri hreyfingin grænt framboð með 8,7% fylgi og hefur fylgið minnkað um eitt prósentustig frá síðustu könnun.

Aðrir flokkar ná ekki manni á þing miðað við þessa könnun. 28,7% styðja ríkisstjórnina.

Könnunin var gerð frá síðasta föstudegi og lauk í gær. Tæplega 900 manns svöruðu.