Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Framsókn tapar en mælist enn stærst

Mynd með færslu
 Mynd:
Sjálfstæðisflokkur og Samfylking bæta við sig mestu fylgi samkvæmt nýrri Gallupkönnun. Fylgi Framsóknarflokks og Bjartrar framtíðar minnkar á sama tíma. Fylgi við Vinstri græn og Pírata eykst. Þrátt fyrir fylgistap mælist Framsóknarflokkurinn enn stærsti flokkurinn og fær nú tæplega 27% fylgi.

Sjálfstæðisflokkur bætir við sig og fær rúm 24 prósent. Samfylkingin bætir við sig þremur prósentustigum og fer yfir fimmtán prósent. Vinstri græn bæta líka við sig og mælast með tæp níu prósent. Píratar eru enn á uppleið og fá rúm átta prósent en Björt framtíð dalar og fær átta prósent. Önnur framboð eru langt frá fimm prósenta markinu, sem tryggir uppbótarsæti.

Dögun og Lýðræðisvaktin eru með um og undir þremur prósentum. Flokkur heimilanna og Hægri grænir eru með ríflega eitt prósent. Regnboginn fær hálft prósent en Sturla Jónsson, Húmanistaflokkurinn, Landsbyggðaflokkurinn og Alþýðufylkingin fá núll komma núll prósent.

Samkvæmt þessu fær Framsóknarflokkur 20 þingmenn, Sjálfstæðisflokkur 17 og Samfylking 10 þingmenn. Vinstri græn fá sex þingmenn en Píratar og Björt framtíð fimm hvor.

 

„Við sjáum þarna tilhneigingu sem við sjáum oft í kosningum, en þó ekki alltaf, að þegar nálgast kjördaginn þá er einhver hópur kjósenda sem leitar heim eins og sagt er. Það er að segja fara til þess sem þeir hafa áður verið með,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. „Það er aðeins að draga úr þessari stóru sveiflu til Framsóknar en Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vinstri-græn heldur að fara upp á við. Í raun og veru er fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem nú er tiltölulega svipað, eiginlega á svipuðum slóðum og það var fyrri partinn í mars, fyrir rúmum mánuði. Og fylgi Samfylkingar og Vinstri-grænna er nú á svipuðum slóðum og það var lengst af á þessu ári.“