Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Framsókn næði inn manni í borgarstjórn

Mynd með færslu
 Mynd:
Samfylkingin og Framsókn og flugvallarvinir bæta bæði við sig fylgi í nýrri skoðanakönnun MMR á fylgi framboðanna í borginni fyrir borgarstjórnarkosningar á laugardag. Framsókn næði inn manni samkvæmt þessari könnun.

Samfylkingin mælist með 32,7 prósenta fylgi í borginni samkvæmt könnuninni, 3,2 prósentustigum meira en í síðustu könnun MMR. Björt framtíð mælist með 22,2 prósenta fylgi en fékk 24,0 prósent í síðustu könnun. Sjálfstæðisflokkur fengi 21,6 prósent, hálfu prósentustigi meira en í síðustu könnun. Fylgi við Pírata og VInstri-græn dregst saman milli kannana. Píratar fara úr 8,2 prósentum í 7,5 prósent og Vinstri-græn úr 9,0 prósentum í 6,8 prósent. Fylgi Framsóknar og flugvallarvina fer úr 5,3 prósentum í 6,8 prósent. Dögun mælist með 2,1 prósent og Alþýðufylkingin með 0,3 prósent.

Samkvæmt þessu fengi Samfylkingin fimm borgarfulltrúa, Björt framtíð fjóra og Sjálfstæðisflokkurinn þrjá. Píratar, Framsókn og flugvallarvinir og Vinstri-græn fengju einn borgarfulltrúa hvert framboð um sig.

Könnunin var gerð með rafrænum hætti dagana 26. til 28. maí. 917 einstaklingar svöruðu og 85,3 prósent tóku afstöðu til flokka.