Framsókn kynnir stefnumál sín

16.10.2016 - 15:17
Framsóknarflokkurinn vill taka upp komugjald á ferðamenn, byggja nýjan Landspítala á nýjum stað, hækka lágmarkslífeyri aldraðra og aðstoða ungt fólk í húsnæðismálum. Þetta er á meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi flokksins þar sem stefnumálin fyrir Alþingiskosningarnar voru kynnt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og Lilja Alfreðsdóttir kynntu stefnumálin. Í tilkynningu sem dreift var á fundinum segir að Framsóknarflokkurinn hyggist, eftir kosningar, starfa með öllum þeim flokkum sem „láta sig félagshyggju og jöfnuð varða og tilbúnir eru til að varðveita nauðsynlegan stöðugleika í íslensku atvinnu-og efnahagslífi og áframhaldandi“.

Fyrir kosningarnar leggur Framsóknarflokkurinn meðal annars áherslu á að bæta hag millistéttarinnar, lækka neðra skattþrep verulega og gera persónuafslátt útgreiðanlegan. Þá vill Framsóknarflokkurinn endurskoða peningastefnuna, hækka lágmarkslífeyri aldraðra í 300 þúsund krónur á mánuði og að lífeyririnn fylgi lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði. Auk þess að byggja Landspítala á nýjum stað vill Framsóknarflokkurinn auka framlög til heilbrigðisstofnana um allt land og fjölga hjúkrunarrýmum. Fæðingarorlofið vill Framsókn lengja í 12 mánuði og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund krónur, hækka barnabætur og afnema virðisaukaskatt af barnafötum. Þá vilja Framsóknarmenn breyta hluta námslána í styrk og leggja sérstaka áherslu á að styrkja iðn-og verknám. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi