Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Framsókn í lykilaðstöðu

30.10.2017 - 19:39
Mynd: Skjáskot / RÚV
Framsóknarflokkurinn virðist vera í algjörri lykilaðstöðu og geta myndað ríkisstjórn hvort sem er til hægri eða vinstri, segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði. Hann segir að svo virðist sem allt sé komið á fleygiferð í þreifingum að myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Eiríkur fór yfir stöðuna sem upp er komin eftir kosningar og viðtöl formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi við forseta í dag.

„Það virðist allt vera komið á fleygiferð. Stjórnarandstaðan er byrjuð í óformlegum viðræðum, hvar svo sem þær eru nú staddar. Þetta eru flokkar sem samanlagt hafa meirihluta á Alþingi,“ sagði Eiríkur. Hann vísaði til þess að forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hefðu óskað eftir því við forseta að þeir fengju ráðrúm til að tala saman. „Það er nú kannski eftirtektarverðast, þótti mér, að formaður Viðreisnar nefndi nákvæmlega það sama og virðist sitja á hliðarlínunni við að koma inn í þetta samtal. Síðan er líka augljós möguleiki til hægri þannig að núna eru stjórnmálaforingjarnir í svolitlu kapphlaupi myndi ég halda.“

Eiríkur sagði feykilega flókið að bræða saman stjórnmálastefnur fjögurra stjórnmálaflokka, hvað þá fimm. „Framsóknarflokkurinn hefur kannski verið sá sem hefur talað með mestu efasemdunum. Þannig að ljónin eru kannski að draga Framsóknarflokkinn inn í samningaherbergið fullum fetum og almennilega.

Framsóknarflokkurinn virðist vera í algjörri lykilstöðu í stjórnarmyndunarþreifingum stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra sagði Eiríkur. „Hann getur ráðið því hvort það sé hægt að fara í þessa vinstristjórn, líklega þá með Viðreisn. Þá er lengst á milli Framsóknar og Viðreisnar í mörgum málum sem fara yfir þennan frjálslynda íhaldssama ás.“

Framsóknarflokkurinn getur líka snúið sér til hægri í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, Miðflokkinn og hugsanlega Flokk fólksins, sagði Eiríkur.