Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Framsókn bætir við sig níu þingmönnum

Mynd með færslu
 Mynd:
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn á þingi, er með 20 þingmenn þegar talin hafa verið rúmlega 78 þúsund atkvæði eða tæplega 33 prósent. Framsóknarflokkurinn bætir við sig níu þingmönnum, fengi átjan menn kjörna en var með níu.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir því við sig fjórum þingmönnum frá því í kosningunum fyrir fjórum árum.  Samanlagt eru þessir tveir flokkar því með 38 þingmenn af 63.  

Björt framtíð, sem er að bjóða fram í fyrsta skipti, nær sex mönnum á þing. Samfylkingin geldur afhroð, missir helming þingmanna sinna og hinn stjórnarflokkurinn, Vinstrihreyfingin grænt framboð, nær níu mönnum á þing. Hún fékk fjórtán þingmenn í síðustu Alþingiskosningum.

Þingmenn skiptast eftir kjördæmum sem hér segir:

Reykjavíkurkjördæmi norður: Sjálfstæðisflokkur fær þrjá menn kjörna, það eru Illugi Gunnarsson, Brynjar Þór Níelsson og Birgir Ármannsson. Framsókn fær tvo menn kjörna, það eru Frosti Sigurjónsson og Sigrún Magnúsdóttir. Samfylking fær tvo menn kjörna, það eru Össur Skarphéðinsson og Valgerður Bjarnadóttir sem er í jönfunarsæti. Vinstri grænir fá tvo menn kjörna, það eru Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, og Árni Þór Sigurðsson. Björt framtíð fær tvo menn kjörna, það eru þær Björt Ólafsdóttir og Heiða Kristín Helgadóttir, sem er í jöfnunarsæti.

Reykjavíkurkjördæmi suður: Sjálfstæðisflokkur fær þrjá menn kjörna, það eru Hanna Birna Kristjánsdóttir, Pétur H. Blöndal og Guðlaugur Þór Þórðarson. Framsóknarflokkur fær tvo menn kjörna, það eru Vigdís Hauksdóttir og Karl Garðarson. Samfylkingin fær tvo menn kjörna, það eru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar. Vinstri grænir eru með tvo menn, það eru Svandís Svavarsdóttir og Álfheiður Ingadóttir í jöfnunarsæti. Björt framtíð fær tvo menn kjörna, það eru Róbert Marshall og Óttarr Proppé í jöfnunarsæti.

Suðvesturkjördæmi: Sjálfstæðisflokkur er stærstur með fimm menn kjörna, það eru Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Bjarnason og Elín Hirst í jöfnunarsæti. Framsóknarflokkur er með þrjá menn inni, það eru Eygló Harðardóttir, Willum Þór Jónsson og Þorsteinn B. Sæmundsson. Vinstri Grænir fá tvo menn kjörna, það eru Ögmundur Jónasson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir í jöfnunarsæti. Samfylking fær tvo menn kjörna, það eru Árni Páll Árnason, formaður flokksins og Katrín Júlíusdóttir. Björt framtíð fær einn mann kjörinn, það er Guðmundur Steingrímsson.

Suðurkjördæmi: Framsóknarflokkur fær fimm menn kjörna, þeir eru Sigurður Ingi Jóhannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson og Fjóla Hrund Björnsdóttir í jöfnunarsæti. Sjálfstæðisflokkur fær einnig fjóra menn kjörna, það eru Ragnheiður Elín Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason. Oddný G. Harðardóttir nær kjöri fyrir Samfylkingu. Næsti maður inn í jöfnunarsæti væri Arndís Soffía Sigurðardóttir, Vinstri Grænum.

Norðvesturkjördæmi: Framsóknarflokkur fær þrjá menn kjörna, þeir eru Gunnar Bragi Sveinsson, Ásmundur Einar Daðason og Elsa Lára Arnardóttir, sem er í jöfnunarsæti. Sjálfstæðisflokkur fær einnig þrjá menn, þeir eru Einar K. Guðfinnsson, Haraldur Benediktsson og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir. Aðrir þingmenn í kjördæminu eru Guðbjartur Hannesson, Samfylkingu, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri grænum. Næsti maður inn væri Sigurður Örn Ágústsson, Sjálfstæðisflokki, á kostnað Framsóknarflokks.

Norðausturkjördæmi: Framsóknarflokkur fær þrjá þingmenn, þeir eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, Höskuldur Þór Þórhallsson og Líneik Anna Sævarsdóttir. Sjálfstæðisflokkur fær samkvæmt nýjustu tölum þrjá menn, og hlýtur jöfnunarsæti. Kjörnir menn hjá Sjálfstæðisflokki eru Kristján Þór Júlíusson, Valgerður Gunnarsdóttir og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir. Steingrímur J. Sigfússon nær kjöri fyrir Vinstri græna ásamt Bjarkey Gunnarsdóttur. Samfylking fær einn mann kjörinn, það er Kristján L. Möller.