Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Framsal í staðgöngumæðrun einna erfiðast

29.01.2014 - 21:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Eitt erfiðasta lögfræðilega og siðfræðilega úrlausnarefnið sem sýr að staðgöngumæðrun er hvenær og hvernig skuli ganga frá framsali á foreldrastöðu milli staðgöngumóður og verðandi foreldra. Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag.

Alþingi samþykkti þingsályktun árið 2012 þar sem heilbrigðisráðherra, sem þá var Guðbjartur Hannesson Samfylkingu, skyldi skipa nefnd til að semja frumvarp um staðgöngumæðrun. Kristján Þór flutti Alþingi í dag skýrslu um hvernig starf nefndarinnar gengi fyrir sig. Hann sagði að unnið væri að málinu í samræmi við vilja Alþingis og nefndin hefði fengið sérfræðinga úr ráðuneytinu sér til aðstoðar í fyrra.

Minni líkur á sniðgöngu með þrengri aðgangi
„Í þessu felst að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er bönnuð en innan ramma velgjörðar sé hún hluti af íslenskri heilbrigðisþjónustu. Kostnaði við hana verði mætt af hinu opinbera og framkvæmd af heilbrigðisstofnunum sem hafi til þess leyfi," sagði Kristján Þór um áherslur í nefndarstarfinu.

Ráðherra sagði samspil skilyrða um aðgang staðgöngumóður og foreldra að lögmætu ferli vera lykilatriði. „Því þrengri sem sá aðgangur er því ólíklegra er að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé fær hér á landi enda sé framkvæmdin aðeins möguleg á heilbrigðisstofnunum sem hafa til þess leyfi."

Eitt erfiðasta úrlausnarefnið
Skýrar reglur geta tryggt lögformlegt sjálfstæði staðgöngumóður á meðgöngu og fram yfir fæðingu, allt þar til hún tekur ákvörðun um að afsala sér þessum rétti, sagði Kristján Þór. „Eitt erfiðasta lögfræðilega og siðfræðilega úrlausnarefnið sem tengist staðgöngumæðrun er hvenær og hvernig skuli ganga frá framsali á foreldrastöðu. Er hægt að gera bindandi samninga fyrir fæðingu barns? Í þinglegri meðferð 2011 og 2012 svaraði Alþingi þessum spurningum neitandi," sagði Kristján og benti á að samkvæmt hefðbundnum íslenskum sjónarmiðum í samningarétti rúmaðist slíkt ekki innan samningalaga. Hann sagði ljóst að einhvers konar persónulegt samkomulag væri forsenda ferlisins, það þyrfti að vera sameiginlegt án þess að vera bindandi um afsal á foreldarétti.

Mörkin færð til
Margir þingmenn tóku til máls í umræðu um skýrslu heilbrigðisráðherra sem hófst síðdegis og stóð í tæpar tvær klukkustundir.

„Hver er réttur hennar til þess að skipta um skoðun eftir að barnið er hætt? Og hvernig er hægt að krefjast þess með bindandi hætti að manneskja afneiti tilfinningum sínum fyrirfram," spurði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, um stöðu staðgöngumóður. Hann sagði að með því að samþykkja staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni væru mörkin færð til og því gæti orðið erfiðara fyrir konur en ella að standa gegn þrýstingi um að taka að sér staðgöngumæðrun.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði ekki tímabært að setja lög sem heimili staðgöngumæðrun. Hún sagðist óttast að meiri áhersla yrði lög á rétt fólk til að eignast barn heldur en að tekið væri tillit til staðgöngumæðra.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri-grænna, varaði við því að konur yrðu gerðar að verkfæri til að gera vonir annarra um að eignast börn að veruleika.

Hví á kona ekki að geta tekið ákvörðun um þetta?
Jóhanna Kristín Björnsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að vankantar væru á þessu máli eins og öðrum. Hún spurði hvort hægt væri að setja reglur, til dæmis um að hver kona mætti aðeins einu sinni ganga með barn fyrir aðra konu og að hún þyrfti að vera búin að ganga í gegnum minnst eina fæðingu áður.

Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að réttur lagarammi um staðgöngumæðrun myndi koma í veg fyrir að fólk misnotaði sér aðstæður kvenna til að fá þær til að ganga með barn fyrir sig. Hún sagði að konum væri treyst til að taka sjálfar ákvörðun um að eignast eigin börn. „Af hverju á hún þá ekki að geta tekið ákvörðun um að eignast barn fyrir einhvern annan?" spurði Jóhanna María.

Einnar messu virði
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði að sér þætti vera samhljómur um að hafa ekki móðurrétt af konu meðan hún gengi með barnið og að það yrði refsivert að greiða fyrir staðgöngumæðrun. Honum virtist sem spurningin væri hvort staðgöngumæðrun í velferðarskyni væri möguleg eða hvort slík löggjöf opnaði alltaf fyrir staðgöngumæðrun gegn greiðslu. „Ég hallast að því að það sé í það minnsta einnar messu virði að smíða löggjöf sem gerir velgjörð mögulega."

„Ég tel líkama konu ekki geta verið tæki til að framleiða barn til að láta frá sér," sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í lokin að hópurinn sem semur frumvarpið reyni að nálgast þær niðurstöður sem Alþingi kallaði eftir með þingsályktun um lagasamningu. Það væri þó ekki einfalt mál. Hann sagði að gæta þyrfti þess að réttindi allra yrðu virt en þó einkum og sér í lagi réttur barnsins.

[email protected]