Á milli tveggja hárra fjalla
er staður sem þeir kalla Einmana.
Skil ekki hvers vegna hann er kallaður Einmana;
ég er aldrei einsömul er ég fer þangað
Þetta syngur tónlistarkonan Elizabeth Eaton Converse, betur þekkt sem Connie Converse, í lagi sínu Talkin' Like You (Two Tall Mountains).
Alin upp á strangtrúðu heimili
Converse er fædd árið 1924 í New Hampshire í Bandaríkjunum. Hún var miðjubarnið á strangtrúuðu heimili. Þetta var Baptista-fjölskylda – það er að segja; þau játuðu trú með niðurdýfingarskírn á eigin ábyrgð eftir að hafa náð ákveðnum aldri. Elisabeth var afburðanámsmaður, vann til fjölda verðlauna, dúxaði í menntaskóla og fékk námsstyrk til þess að halda áfram menntaveginn í Massachusetts. Eftir tveggja ára háskólanám hætti hún þó og flutti í bóhem-listamannahverfið Greenwich Village í New York-borg. Þar hætti hún að láta kalla sig Elisabeth, tók upp viðurnefnið Connie, sem og lifnaðarhætti sem trúaðir foreldrar hennar höfnuðu: Hún byrjaði að reykja og drekka, og fór að semja tónlist.
Tónlistin gefin út hálfri öld síðar
Hún spilaði ýmist fyrir vini og vandamenn, en ekki stærri áheyrendahópa. Ja jú reyndar í eitt skipti, og var það eina skiptið sem hún kom fram opinberlega. Það var hjá Walter Cronkite í bandaríska sjónvarpsþættinum The Morning Show árið 1954. Henni gekk ekki vel að selja tónlist sína og hún lagði gítarinn á hilluna árið 1961 – og gaf skáldagyðjunni frí í leiðinni. Flutti í kjölfarið frá New York-borg til Ann Arbour í Michigan. Þar tók við skrifstofustarf sem síðar þróaðist yfir í ritstjórastöðu tímaritsins Journal of Conflict Resolution. Tónlist hennar leit ekki dagsins ljós fyrr en rúmum fimmtíu árum eftir upptökur, eða árið 2004. Gene Deitch, listamaður og vinur Converse, hafði séð um upptökur á efni hennar fyrir miðbik sjötta áratugarins. Árið 2004, þá á áttræðisaldri kom Deitch fram í útvarpsþættinum Spinning on Air og spilaði nokkur lög eftir Connie Converse. Tveir hlustenda þáttarins urðu svo hrifnir að þeir hófu allsherjarleit að tónlist hennar; fundu meðal annars gamlar upptökur í geymslu í Ann Arbour, upptökur sem Converse hafði sent bróður sínum, sem og hljóðupptökusafn Deitch. Fimm árum síðar, í mars 2009 varð til 17 laga plata með áður óútgefnu efni frá Connie Converse: Platan nefnist How Sad, How Lovely. Upp úr því hefur vaxið gífurlega stór aðdáendahópur.