Framsækna tónlistarkonan sem hvarf

Mynd: Youtube / Youtube

Framsækna tónlistarkonan sem hvarf

14.12.2017 - 11:00

Höfundar

Connie Converse er bandarísk tónlistarkona sem samdi hugljúfa, háðslega og afar persónulega tónlist fyrir miðbik síðustu aldar. Tónlist hennar leit þó ekki dagsins ljós fyrr en rúmum fimmtíu árum eftir upptökur. Er áhugi óx á lífi hennar og list kom í ljós að tónlistarkonan hafi látið sig hverfa árið 1974. Ekkert hefur til hennar spurst síðan.

Á milli tveggja hárra fjalla
er staður sem þeir kalla Einmana.
Skil ekki hvers vegna hann er kallaður Einmana;
ég er aldrei einsömul er ég fer þangað

Þetta syngur tónlistarkonan Elizabeth Eaton Converse, betur þekkt sem Connie Converse, í lagi sínu Talkin' Like You (Two Tall Mountains). 

Alin upp á strangtrúðu heimili 

Converse er fædd árið 1924 í New Hampshire í Bandaríkjunum. Hún var miðjubarnið á strangtrúuðu heimili. Þetta var Baptista-fjölskylda – það er að segja; þau játuðu trú með niðurdýfingarskírn á eigin ábyrgð eftir að hafa náð ákveðnum aldri. Elisabeth var afburðanámsmaður, vann til fjölda verðlauna, dúxaði í menntaskóla og fékk námsstyrk til þess að halda áfram menntaveginn í Massachusetts. Eftir tveggja ára háskólanám hætti hún þó og flutti í bóhem-listamannahverfið Greenwich Village í New York-borg. Þar hætti hún að láta kalla sig Elisabeth, tók upp viðurnefnið Connie, sem og lifnaðarhætti sem trúaðir foreldrar hennar höfnuðu: Hún byrjaði að reykja og drekka, og fór að semja tónlist.

Tónlistin gefin út hálfri öld síðar

Hún spilaði ýmist fyrir vini og vandamenn, en ekki stærri áheyrendahópa. Ja jú reyndar í eitt skipti, og var það eina skiptið sem hún kom fram opinberlega. Það var hjá Walter Cronkite í bandaríska sjónvarpsþættinum The Morning Show árið 1954. Henni gekk ekki vel að selja tónlist sína og hún lagði gítarinn á hilluna árið 1961 – og gaf skáldagyðjunni frí í leiðinni. Flutti í kjölfarið frá New York-borg til Ann Arbour í Michigan. Þar tók við skrifstofustarf sem síðar þróaðist yfir í ritstjórastöðu tímaritsins Journal of Conflict Resolution. Tónlist hennar leit ekki dagsins ljós fyrr en rúmum fimmtíu árum eftir upptökur, eða árið 2004. Gene Deitch, listamaður og vinur Converse, hafði séð um upptökur á efni hennar fyrir miðbik sjötta áratugarins. Árið 2004, þá á áttræðisaldri kom Deitch fram í útvarpsþættinum Spinning on Air og spilaði nokkur lög eftir Connie Converse. Tveir hlustenda þáttarins urðu svo hrifnir að þeir hófu allsherjarleit að tónlist hennar; fundu meðal annars gamlar upptökur í geymslu í Ann Arbour, upptökur sem Converse hafði sent bróður sínum, sem og hljóðupptökusafn Deitch. Fimm árum síðar, í mars 2009 varð til 17 laga plata með áður óútgefnu efni frá Connie Converse: Platan nefnist How Sad, How Lovely. Upp úr því hefur vaxið gífurlega stór aðdáendahópur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Lau derette
Plötuumslag How Sad, How Lovely

Djarfir og hnittnir textar

Iðunn Snædís Ágústsdóttir, nemi á skapandi tónlistarmiðlunarbraut við Listaháskóla Íslands, er aðdáandi Connie Converse. „Textarnir geta verið hnittnir og líka svolítið djarfir. Þeir gefa til kynna að hún hafi lifað litríku lífi. Hún fjallar mikið um ástina, ástarsambönd, og svo þegar maður kemst að því hver hún er, þá er hún ekki sú manneskja. Hún er mjög lokuð og lifði mjög prívat lífi. Klæðaburði hennar var oft lýst eins og nunnu, og þá er mjög skrýtið að hlusta á lag sem heitir Roving Woman til dæmis, sem fjallar um konu sem stundar það að fara á bar í New York og kynnist þar mönnum til þess að fara með heim,“ sagði Iðunn í viðtali við Lestina í dag og bætti við: „Þarna fjallar hún um lauslæti kvenna á hátt sem var ekki fjallað um á þessum tíma. Þetta var kannski málefni sem var bælt á þessum tíma - kynhegðun kvenna var ekki eins frjáls og hún er í dag.“

Eins og Iðunn Snædís nefndi þá orti Converse um kynferði, kynlíf, og innri hugarheim. Þau viðfangsefni eru talin meðal sérkenna tónlistar hennar og telur tónlistarsagnfræðingurinn David Garland verk hennar þess vegna hafa verið á undan sínum samtíma; einstaklingshyggjan og sjálfstæður reynsluheimur konunnar sem við fáum að kynnast í textum hennar.

Meðal fyrstu nútíma söngvaskáldanna

Hann vill einnig meina að hún sé meðal fyrstu nútíma-söngvaskáldanna. Hún sé söngvaskáld sem samdi tónlist sína sjálf og orti út frá eigin sjónarhorni - frumleg, tilfinninganæm, greind og fyndin í textum sínum. Textarnir séu afar persónulegir, en svo einlæg tilfinningaleg tjáning var sjaldséð á þessum árum. Joni Mitchell, Bob Dylan, Neil Young, Nick Drake, Joan Baez enn ekki komin fram á sjónarsviðið, og flokkurinn söngvaskáld eða „singer-songwriter“ enn ekki til í orðabókum tónlistarsögunnar. Hugtakið kom ekki upp fyrr en um 1970, enda óalgengt að tónlistarmenn fyrir þann tíma fengu að ráða allri sinni tónlist sjálfir. Eitthvað sem tók einmitt stakkaskiptum með Bítlunum og Bob Dylan upp úr sjöunda áratugnum.

„Því meira sem ég fór að lesa um Connie þá fannst mér ég kynnast henni sem persónu. Hún var þessi svakalega lokaða manneskja sem að tjáði svo margt í tónlistinni, sem hún tjáði ekki í samtölum. Bróðir hennar var rosalega hissa þegar hann heyrði textana hennar, því þar kom ýmislegt fram sem hann bara vissi ekki um systur sína,“ sagði Iðunn Snædís um persónuleg textaskrif Connie Converse. 

Lét sig hverfa árið 1974

„Það er eiginlega ekki hægt að tala um Connie, án þess að tala um hvarfið á Connie, vegna þess að þegar hún var fimmtug, þá ákvað hún að láta sig hverfa. Skrifaði torskilin bréf til fjölskyldumeðlima, pakkað upp í bjölluna sína og keyrði burt. Ekkert hefur til hennar spurst síðan,“ sagði Iðunn um dullarfullt hvarf tónlistarkonunnar. Meðal bréfanna sem hún skildi eftir sig var bréf til bróður hennar Philips Converse. Þar skrifaði hún:

„Sleppið mér, leyfið mér að vera ef ég það get á annað borð. Leyfið mér ekki að vera, ef ég get það ekki. Ég hef fylgst með elegant, drífandi fólkinu í Ann Arbour, fólki sem ég þekki, fólki sem ég þekki ekki, að sinna hversdagslegum verkefnum sínum og ég hef fundið fyrir hlutlausri aðdáun á fágun þeirra og þreki. Ef ég var nokkurn tímann hluti af þessari tegund, þá var það líklega samfélagslegt slys, sem nú hefur verið komið í veg fyrir. Samfélag manna heillar mig og hrífur mig og fyllir mig sorg og gleði; Ég bara finn mér hreinlega ekki samastað í þessu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Youtube - Youtube
Connie Converse

Fjölskylda Converse segir hana hafa þjást af þunglyndi og streitu áður en hún lét sig hverfa. Í einhverjum bréfanna nefnir hún áform um að hefja nýtt líf annars staðar. Hvar sá staður er, eða var, er enn ekki vitað, verður kannski aldrei vitað. Bróður hennar grunar að hún hefði tekið eigið líf; hann nefndi í viðtali að hann haldi að hún hafi keyrt Volkswagen-bjölluna út í sjó.

Auknar vinsældir og útgáfa ábreiðuplötu 

Mannshvörf, og sönn sakamál, hafa ávallt vakið með manninum eins konar „morbid curiosity“ eða spennu fyrir dauðanum, dauðaforvitni. Sjónvarpsþættir á borð við The Keepers, Making a Murderer, The Confession Tapes, Jinx, Shadow of Truth. Hlaðvarpsþættir eins og Missing Richard Simmons, Serial, S-Town, Dirty John og fleira mætti nefna. Vinsældir afþreyingarefnis um óupplýst sakamál og mannshvörf um þessar mundir, skýra kannski að hluta til vinsældir Connie Converse. Auðvitað eru það þó verkin, margslungin og einstök tónlist Converse, sem skapað hafa stóran alþjóðlegan aðdáendahóp. Eftir útgáfu How Sad, How Lovely, hefur tónlistarkonan orðið innblástur ólíkra tónlistarmanna. Í síðasta mánuði kom út ábreiðuplata þar sem söngvaskáld úr ólíkum áttum votta Converse virðingu sína. Tónlistarmenn eins og Laurie Anderson, Karen O, Mike Patton, Sam Amidon, Margaret Glaspy, Big Thief og Martha Wainwright.

Lestin á Rás 1 fjallaði um tónlist og sögu Connie Converse. Viðmælandi var Iðunn Snædís Ágústsdóttir. Hlusta má á hljóðbútinn í heildsinni hér að ofan.