Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Framræst land: Telja óvissu í mælingum á losun

Mynd með færslu
 Mynd: - - reykjavik.is
Talið hefur verið að stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi komi frá framræstu votlendi. Í grein í Bændablaðinu á dögunum bentu Guðni Þorvaldsson, prófessor í jarðrækt við Landbúnaðarháskóla Íslands og Þorsteinn Guðmundsson, prófessor í jarðvegsfræði við sama háskóla, á óvissu sem þeir telja í þeim mælingum.

Guðni bendir á að í umræðunni að undanförnu hafi jafnvel verið rætt um endurheimt votlendis í stórum stíl. Hann segir mikilvægt að fara varlega í sakirnar vegna óvissu í mati á losun. „Ef menn ætla að fara strax í þetta þá er mikilvægt að gera áætlanir byggðar á sterkum grunni. Við getum ekki lagt þetta inn í kolefnisbókhaldið sem stendur því það vantar betri grunn til að byggja á,“ segir hann.

Endurheimt votlendis er eitt þeirra úrræða sem talin eru geta nýst til að draga úr losun góðurhúsalofttegunda hér á landi. Land, sem var á sínum tíma ræst fram með skurðum og þurrkað, losar koltvísýring út í andrúmsloftið. Með því að fylla aftur upp í skurði, þannig að landið blotni aftur, er talið að draga megi úr þeirri losun.

Óvissa um stærð lands og magn lífrænna efna

„Óvissan eru þrenns konar að mínu mati; stærð landsins, magn lífrænna efna og stuðlar sem notaðir eru til mælinga, sem eru erlendir. Stærð þess lands sem búið er að ræsa fram hér á landi er ekki alveg á hreinu,“ segir Guðni. Ekki sé nóg að meta hve mikið land sé búið að ræsa fram heldur þurfi einnig að meta hve mikið af lífrænum efnum sé í landinu. Af því megi ráða hve mikill ávinningurinn af uppfyllingu verði. „Það er breytilegt hve mikið magn lífræns efnis er í íslenskum mýrum. Sumar þeirra eru með svipað magn og þurrlendi,“ segir hann.

Segja umhugsunarefni hvort erlendir stuðlar henti

Önnur óvissa að mati Guðna og Þorsteins snýr að þeim stuðlum sem miðað er við í mælingum á losun. „Hér á landi er mikið miðað við erlenda stuðla.“ Í greininni segir að fyrir mýrartún hafi verið notaðir stuðlar sem ætlaðir eru fyrir akurlendi en ekki graslendi. Akurlendi sé land sem unnið sé reglulega og þar séu yfirleitt ræktaðar einærar tegundir. Eðlilegra væri að nota stuðla fyrir graslendi, fyrir tún hér á landi. Þá sé einnig umhugsunarefni hvort gott sé að nota sömu losunarstuðla fyrir temprað og norðlægt loftslag. Velta megi fyrir sér hvort losun á koltvísýringi úr íslenskum mýrum sé jafn hröð og í löndum með hlýrri og lengri sumur.

Þurrkað votlendi víða ræktunarland

Í greininni í Bændablaðinu benda Guðni og Þorsteinn á að þurrkað votlendi sé víða mikilvægt ræktunarland og takmörk séu fyrir því hve mikið af því sé hægt að taka úr umferð. Þar segir að tæpur helmingur ræktaðs lands hér á landi sé á framræstu landi og einnig töluvert af beitilandi. Því þurfi að huga vandlega að því hvar skynsamlegt sé að endurheimta votlendi og hvar landbúnaður hafi forgang.

Hér má lesa grein Guðna og Þorsteins í Bændablaðinu.