Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framlög til stjórnmálaflokka hækka enn

13.12.2018 - 19:53
Mynd:  / 
Framlög til stjórnmálaflokka hækka um 20 prósent á næsta ári eftir að hafa rúmlega tvöfaldast í ár. Því til viðbótar fá þingflokkar sautján aðstoðarmenn á næstu þremur árum, sem munu kosta yfir 250 milljónir á ári.

Í fyrra fengu stjórnmálaflokkar 286 milljónir króna úr ríkissjóði á fjárlögum, það sama og árin á undan. Sú upphæð snarhækkaði um síðustu áramót að beiðni flestra flokka, í 648 milljónir, sem skiptust eftir gengi í kosningum. Píratar og Flokkur fólksins skrifuðu ekki upp á beiðnina en nutu afraksturins eftir sem áður.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að framlögin fari enn hækkandi. Samkvæmt frumvarpi sem formenn allra flokka lögðu fram í síðustu viku og er afrakstur vinnu nefndar á vegum forsætisráðherra með fulltrúum allra flokka, eiga framlögin framvegis að hækka í samræmi við verðlag og launaþróun til helminga. Sú hækkun er óvissu háð en gæti numið um 40 milljónum á næsta ári.

Ofan á það á að bætast við nýtt grunnrekstrarframlag upp á 12 milljónir á hvern þingflokk. Þetta á að styrkja stöðu smærri flokka og kostar 96 milljónir á ári miðað við núverandi stöðu, með átta flokka á þingi.

Þessu til viðbótar lögðu allir þingflokksformenn í gær fram frumvarp um aðstoðarmenn þingflokka. Hver þingflokkur hefur nú ritara sem þingið borgar  og einnig er greitt fyrir aðstoðarmenn flokksformanna sem ekki eru ráðherrar. Kostnaður við þetta er rúmar 150 milljónir á ári og engin breyting að ráði verður gerð á þessu. Sumir þingflokkar eru með fleiri starfsmenn sem þeir borga sjálfir með ráðstöfunarfé sínu.

Nú er lagt til að þingflokkarnir fái sautján aðstoðarmenn til viðbótar, sem þingið greiðir og úthlutist eftir þingstyrk – átta á næsta ári, einn á hvern flokk, og svo fimm og fjóra. Að þremur árum liðnum mun þessi viðbót kosta um 255 milljónir á ári.

Hugmyndin með þessum aðstoðarmönnum er að styrkja störf þingsins eins og segir í stjórnarsáttmálanum að eigi að gera. Gera má ráð fyrir að frumvarpið fljúgi í gegnum þingið, enda er það í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, lagt fram af þingflokksformönnum allra flokka og búið að gera ráð fyrir 120 milljónum í fyrstu aðstoðarmennina á fjárlögum næsta árs.

En þetta er ekki allt. Í fyrra frumvarpinu er líka gert ráð fyrir að leyfileg hámarksframlög einstaklinga og fyrirtækja til flokka hækki, úr 400 þúsundum í 550 þúsund. Þetta er rökstutt með verðlagsbreytingum.

Sama máli gegnir um hámarksupphæðina sem einstaklingur getur gefið nafnlaust – hún er hækkuð úr 200 þúsundum í 300 þúsund, jafnvel þótt Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hafi í úttektarskýrslu í vor mælt með því að þetta mark yrði lækkað.