Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framleiðsla í Straumsvík minnkuð um 15 prósent

25.01.2020 - 07:13
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Stjórnendur Rio Tinto, fyrirtækisins sem rekur álverið í Straumsvík, hafa ákveðið að minnka framleiðslu álversins um 15 prósent á þessu ári og raforkunotkun verksmiðjunnar um leið. Við þetta verður Landsvirkjun af tekjum upp á allt að 20 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar hálfum þriðja milljarði króna.

Morgunblaðið greinir frá. Í blaðinu segir að framleiðslan minnki um 28.000 tonn; fari úr 212.000 tonnum árið 2018 í 184.000 tonn á þessu ári. 2019 er ekki samanburðarhæft vegna mikilla frávika af völdum bilana, sem leiddu til þess að slökkva þurfti á einum af þremur kerskálum verksmiðjunnar um mitt síðasta ár.

Heimildir Morgunblaðsins herma að samdrátturinn þýði 2,5 milljarða tekjutap fyrir Landsvirkjun, og að að Rio Tinto hafi fulla heimild til að minnka rafmagnskaupin með þessum hætti. Um fjórðungur allrar rafmagnsframleiðslu Landsvirkjunar hefur farið í að knýja álverið í Straumsvík; aðeins álver Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði kaupir meira rafmagn.

Haft er eftir Bjarna Má Gylfasyni, upplýsingafulltrúa álversins í Straumsvík, að erfið staða á álmörkuðum elrlendis sé ástæða samdráttarins. Þá herma heimildir blaðsins að stjórnvöld hafi verið upplýst um stöðu málsins. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV