Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Framleiðsla hvalabjórs bönnuð

13.01.2014 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur ákveðið að banna framleiðslu á svokölluðum hvalabjór þar sem framleiðsla á hvalmjöli uppfyllir ekki skilyrði matvælalaga.

Brugghúsið Steðji í Borgarfirði hóf fyrir stuttu framleiðslu á hvalabjór og hugðist bjóða hann til sölu á þorranum. Í framleiðsluna er notað um það bil eitt kíló af hvalamjöli í hverja lögun, sem er um 2000 lítrar. Hvalur hefur leyfi til að seljahvalkjöt, rengi og spik til manneldis. Afgangurinn af dýrinu, innyflin, bein og annað gums er soðið við mikinn hita. Úr verður annarsvegar lýsi - og svo hvalmjöl úr beinunum. Beinmjöl eins og hvalamjöl er óheimilt samkvæmt Evróputilskipun að nota sem fóður fyrir skepnur - sem aldar eru til manneldis. Þetta sama mjöl keypti brugghúsið Steðji og hugðist nota til manneldis. 

„Niðurstaðan er sú að allt hráefni sem notað er til matargerðar á að vera samkvæmt matarlöggjöfinni og frá viðurkenndum birgjum. Hvalur er ekki með starfsleyfi til framleiðslu á mjöli til matvælaiðju, þar af leiðandi verðum við að stoppa þetta af,“ segir Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands.

Dagbjartur Ingvar Arilíusson hjá Steðja segir að mjölinu hafi fylgt efnagreining frá Hval og þá hafi Ölgerðin einnig efnagreint bjórinn áður en hann fór til ÁTVR. Bjórinn hafi reynst í góðu lagi. „Ef þetta verður niðurstaðan þá verðum við að sjálfsögðu að hlýta henni,“ segir Dagbjartur. Aðspurður hvort þeir hjá Steðja hefðu ekki þurft að ganga úr skugga um hvort það væri í lagi að nota hvalamjölið til manneldis svarar Dagbjartur: „Það er verið að neyta hvalaafurða á þorrablótum og síðan fæst þetta úti í búð. Við töldum þetta vera hráefni sem við gætum notað í þessar laganir okkar.“