Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framleiðandi Arla sakaður um dýraníð

29.01.2020 - 22:38
Mynd: Skjáskot/SVT / Skjáskot/SVT
Kúabændur í Svíþjóð, sem selja tugi þúsunda mjólkurlítra til stórfyrirtækisins Arla í hverri viku, eru sakaðir um dýraníð. Myndir af mögrum kúm í grútskítugum stíum hafa vakið óhug.

Í auglýsingum matvælafyrirtækisins Arla má gjarnan sjá kýr í grænum haga, unandi hag sínum bara prýðilega. 

Miðað við rannsókn sænska fréttaskýringaþáttarins Uppdrag Granskning og fréttamanna SVT í Gävleborg er það hins vegar ekki alltaf raunin. 

Ljósmyndir og myndbandsupptökur úr fjósi einu í Hälsingland í Svíþjóð sýna magrar og beinaberar kýr sem hafast við í grútskítugum fjósum. 

„Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt og ég hef starfað með dýrum og að dýravelferð lengi,“ segir Margareta Stéen,  dýralæknir. 

Málið hefur vakið umtalsverða athygli, vegna tengsla kúabúsins við Arla, sem er stærsti mjólkurvöruframleiðandi í Skandinavíu. Tugir þúsunda mjólkurlítra renna frá búinu til Arla í viku hverri. 

Bóndinn sem búinu stýrir vildi ekki ræða við fréttamenn þegar þeir bönkuðu upp á til að leita viðbragða, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Áður hafa borist athugasemdir um velferð dýra á búinu, fyrstu ábendingarnar um að þar sé víða pottur brotinn eru frá árinu 2010. 

Hér má horfa á þátt Uppdrag Granskning á SVT um málið.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV