Framkvæmdir við Franska spítalann

25.07.2011 - 12:13
Fyrsta skóflustunga að nýbyggingu Franska spítalans á Fáskrúðsfirði var tekin um helgina. Þetta verður stærsta verkefni Minjaverndar á landsbyggðinni en kostnaður mun hlaupa á um 600 milljónum króna

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði var reistur árið 1903 en hann var byggður af franska ríkinu til að þjóna frönskum sjómönnum. Árið 1939 var húsið flutt útí Hafnarnes, sem er eyðibyggð austarlega á suðurströnd Fáskrúðsfjarðar, en þar fékk húsið lítið viðhald og var ástand þess mjög bágborið þegar Minjavernd, í samvinnu við heimamenn, ákvað taka að sér endurbyggingu hússins og flutning þess inn í þorpið að nýju.

Í kynningarefni frá Minjavernd frá árinu 2008 segir að kostnaðurinn muni nema um 220 milljónum króna en nú er reiknað með að verkefnið muni kosta um 600 milljónir króna. Auk spítalans hyggst Minjavernd endurgera fleiri hús á Fáskrúðsfirði byggð af Frökkum og saman munu þau mynda eina heild fyrir neðan svokallað Læknishús.

Þetta er stærsta verkefni sem Minjavernd hefur ráðist í á landsbyggðinni og svo endar nái saman mun þurfa að leita að fjármagni annars staðar m.a. í Frakklandi en ekki liggja fyrir neinir samningar þess efnis. Og þá hyggst Minjavernd selja aðrar eignir til að standa straum af kostnaði.

Þrátt fyrir þá óvissu sem tengist fjármögnun verkefnisins segir Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, að reiknað sé með því að verkið verði klárað á næstu tveimur árum. Steypuvinna mun hefjast í lok sumars 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi