Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framkvæmdir við 600 milljóna miðstöð hafnar

28.04.2019 - 19:46
Mynd: ark.is / ark.is
Jules Verne, Halldór Laxness og Bárður Snæfellsás eru á meðal þeirra sem koma við sögu í nýrri þjóðgarðsmiðstöð sem nú er verið að reisa við Snæfellsjökul. Áætlaður kostnaður við verkið nemur tæpum 600 milljónum króna.

Nýja þjóðgarðsmiðstöðin verður á Hellissandi og leysir af hólmi gömlu miðstöðina á Malarrifi. Jarðvegsvinna er hafin en á allra næstu vikum verða framkvæmdir við bygginguna sjálfa boðnar út. Stefnt er að því að opna miðstöðina ekki síðar en sumarið 2021, þegar þjóðgarðurinn verður tuttugu ára gamall.  

Mun þetta breyta miklu fyrir þjóðgarðinn?

„Já sannarlega,“ segir Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður. „Þetta mun auka starfsemi okkar töluvert. Við þurfum að fjölga fólki til þess að reka þetta hús. Og ég vænti þess og vona að meirihluti gesta komi hingað inn. Og það verður eiginlega að gerast vegna þess að svona framkvæmd er kostnaðarsöm og þá hvílir sú skylda á okkur að tryggja að húsið sé notað.“

Úr vöndu að ráða

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina nemur tæpum 600 milljónum. Í miðstöðinni verður meðal annars gestamóttaka, fundarsalur, salernisaðstaða og minjagripaverslun. Þá verður boðið upp á ýmiss konar fræðslu, auk þess sem setja á upp sýningar sem tengjast svæðinu. Á meðal þess sem kemur til greina að gera er að setja upp sýningu um sögu Jules Verne, Leyndardóma Snæfellsjökuls.

„Það er eitt af því sem við erum að skoða, hvort við ættum að taka einhverjar frægar sögur eða eitthvað sem hefur gerst hér og setja það upp sem sýningu í húsið. Við þurfum að hafa eitthvað sem dregur að og saga Jules Verne, Leyndardómar Snæfellsjökuls, er góð. En það eru sannarlega fleiri sögur því bæði skrifaði Halldór Laxness Kristnihald undir jökli sem gerist í grennd við þetta svæði, en síðast en ekki síst er það Bárðar saga sem er stórfenglegt ævintýri og væri gaman að setja upp í svona húsi. Þannig að það er úr vöndu að ráða hjá okkur,“ segir Jón.