Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Framkoma Breta „fullkomlega svívirðileg“

03.10.2018 - 20:27
Mynd: Skjáskot / RÚV
Ólafur Þ. Harðarson, Kristrún Heimisdóttir og Gylfi Magnússon ræddu um bankahrunið, hvað Íslendingar hefðu lært og hvað þeir hefðu ekki lært. Þar var meðal annars rifjað upp frægt viðtal við Gylfa sem hljómaði í hádegisfréttum RÚV fyrir nákvæmlega tíu árum og milliríkjadeiluna við Breta. Ólafur sagði framkomu Breta gagnvart Íslendingum hafa verið fullkomlega svívirðilega.

Kristrún, sem var þá aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í utanríkisráðuneytinu, sagði að um leið og neyðarlögin voru samþykkt á Alþingi hefði breski sendiherrann sent skeyti til Lundúna. „Og þá hefst þessi þáttur, harðasta milliríkjadeila í sögu Íslands. Ég segi það vegna þess að við vorum í svo mikill neyð og þarna var verið að sparka í liggjandi mann.“

Kristrún sagði ýmislegt ekki hafa komið fram um framkomu Breta, til að mynda hversu mikla óvirðingu þeir hefðu sýnt Íslendingum . Hún sagði deiluna hafa verið Íslendingum álíka erfiða og múhammeðs-teikningarnar sem birtust í Jyllands-Posten voru Dönum. 

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði að ef Bretar ættu að biðjast afsökunar á öllum sínum illvirkjum í sögunni þá yrðu þeir lengi að því. „Auðvitað var framkoma Breta fullkomlega svívirðileg. En hins vegar megum við ekki hlaupa í það gamla íslenska far, að nota það til að segja að það var allt í góðu lagi hjá okkur. Ekkert af þessu var okkur að kenna, ekkert var að á Íslandi heldur voru þetta bara vondir útlendingar sem voru rótin að öllu okkar óláni.“ Hið gagnstæða komi enda glöggt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV