Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Framhaldsskólar geta ekki greitt reikninga

12.04.2016 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Mynd með færslu
Hjalti Jón Sveinsson Mynd: rúv
Fjárhagsstaða nokkurra framhaldsskóla er orðin svo slæm að rekstrarfé þeirra er uppurið og ekki hægt að greiða reikninga á réttum tíma. Skólameistarar hafa fengið þau skilaboð að þeir skólar sem skulda ríkissjóði vegna rekstrarhalla síðustu ára þurfi að greiða þá skuld áður en auknu rekstrarfé verður deilt út.

Á vef Verkmenntaskólans á Akureyri í gær kom fram að skólinn gæti ekki greitt reikninga þar sem allt rekstrarfé væri uppurið. Ekki fengist aukið fjármagn frá menntamálaráðuneytinu fyrr en skuld við ríkissjóð hafi verið greidd. Sömu sögu er að segja af Kvennaskólanum í Reykjavík.

Vanskil frá því um áramót

„Við erum búin að vera í vanskilum við alla okkar birgja síðan um áramót, þannig að þetta er mjög bagalegt fyrir skólana að eiga ekki fé til að greiða rafmagn, síma, upplýsingakerfi fyrir kennara og nemendur og svo framvegis. Þetta er bara mjög alvarlegur vandi og eiginlega með ólíkindum hvernig þetta hefur verið meðhöndlað. Engin svör hafa borist frá ráðuneytinu, nema bara að greinilega er verið að hegna okkur fyrir að vera í skuld við ríkissjóð um áramót sem við höfum skýringar á og erum búin að reyna að fá ræddar,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands og skólameistari Kvennó.

Frekari niðurskurður ómögulegur

Hann segir að frekari niðurskurður sé ekki mögulegur, gengið hafi verið eins langt og hægt sé á síðustu árum.

„Ja, það er ekkert um niðurskurð að ræða, það er bara um það að ræða að skólanum verði lokað ef heldur fram sem horfir, og þessum skólum sem geta ekki greitt reikningana sína. Það náttúrulega gengur ekki lengur.“

Hjalti segir að fjármagn frá ríkinu hafi ekki fylgt launahækkunum kennara.

„Þeir fjármunir sem reiknaðir eru til launa framhaldsskólakennara, þeir eru mun lægri en þeir eru í raunveruleikanum þannig að þarna hefur myndast gat í rekstrinum sem við höfum í raun ekki fengið viðurkennt. Þetta hefur komið mjög illa við okkur,“ segir Hjalti.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV