Framhald sem er líklegt til að falla í gleymsku

Mynd: WB / WB

Framhald sem er líklegt til að falla í gleymsku

18.11.2019 - 15:17

Höfundar

Kvikmyndin Doctor Sleep er heldur mislukkað framhald The Shining að mati Gunnars Theodórs Eggertssonar gagnrýnanda.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Doctor Sleep er ný mynd úr smiðju Stephens King og framhald á bæði bókinni og kvikmyndinni The Shining. Þar segir frá Danny Torrance, drengnum úr fyrri myndinni, nú fullorðnum, en hann hefur mestmegnis lokað á sjáandi krafta sína og þjáist af alkóhólisma, líkt og faðir hans gerði. Hann kemst í kynni við unglingsstúlkuna Öbru, sem einnig er sjáandi, og þarf þá að horfast í augu við bælda hæfileika sína til að hjálpa henni að kljást við hóp vampirískra sálarsugna sem nærast á kröftum sjáandi fólks.

Doctor Sleep er merkileg stúdía í aðlögunarfræði fyrir þá sem þekkja bæði bækurnar og kvikmyndirnar. Bókin er skrifuð sem framhald af bókinni The Shining, en kvikmyndaútgáfa Kubricks árið 1980 var ólík þeirri skáldsögu á ýmsa vegu – og eins og frægt er var King afar ósáttur við þá kvikmynd. Kvikmyndin Doctor Sleep er hins vegar bæði aðlögun á framhaldsbókinni frá 2013 en sækir líka í brunn myndar Kubricks, þótt meiri háttar ósamræmi sé að finna þar á milli, en til dæmis var hótelið rústir einar í lok skáldsögu Kings, en stóð enn hjá Kubrick. Leikstjórinn Mike Flanagan hefur því þurft að fara sína eigin leið að efninu og byggja undarlega brú á milli kvikmyndar og bókar sem hefur að minnsta kosti heillað höfundinn King, sem sagði Flanagan hafa tekist að lagfæra allt sem pirraði hann við Kubrick-myndina og í raun soðið saman báðar útgáfur á hnökralausan hátt. Ég verð hins vegar að játa að ég hef ekki lesið Doctor Sleep og The Shining las ég sem unglingur og man lítið eftir – en kvikmynd Kubricks hef ég séð margoft og kem því að þessari framhaldsmynd fyrst og fremst út frá henni.

Og ég var alls ekki jafn hrifinn og ég veit að aðrir hafa verið, enda grunar mig að aðdáendur Stephen Kings fái miklu meira út úr myndinni heldur en þeir sem koma að henni frá bæjardyrum Kubricks. Líklega hefði Doctor Sleep grætt á því að vera sjálfstæð saga, en ekki límd svona við forvera sinn, vegna þess að sagan af Danny Torrance og baráttu hans við djöfla fortíðarinnar nær hvort eð er aldrei að harmónera almennilega við söguna af stúlkunni Öbru og baráttu hennar við sálarsugurnar. Persóna Dannys birtist sem einhvers konar lærimeistari í hennar sögu, en það er afar ruglingslegt í ljósi þess að hann hefur enga reynslu af sálarsugunum og hefur eytt ævinni í að forðast sína eigin krafta – en allt í einu er hann fullur af snjöllum hugmyndum og veit ólíklegustu hluti um óvininn, að því er virðist bara vegna þess að það þjónar handritinu. Myndin er afskaplega lengi að koma sér í gang, er ójöfn í uppbyggingu og ég náði aldrei almennilegu sambandi við sálarsugusöguna eða mýtólógíuna í kringum þær ófreskjur.

Handritið er illa skrifað á köflum og svo gott sem allt sagt og útskýrt berum orðum, en það sem stuðaði mig þó mest er hvernig illu öflin eru færð undir ákveðnar skýrar reglur, þeim veittur tilgangur og þar með útskýrð á hátt sem gerir lítið úr gömlu hóteldraugunum. Einn helsti styrkleiki kvikmyndar Kubricks var einmitt hvernig honum tókst að framandgera ógnina, viðhalda óræðni út í gegn og þar með opna fyrir túlkanir og kynda virkilega undir ímyndunaraflinu. Doctor Sleep drepur hins vegar alla óræðni og mig grunar að hún verði auðgleymd.

Á móti kemur er Mike Flanagan sjónrænn og áhugaverður leikstjóri og inni á milli eru reglulega flottar senur, sem sagt mannfórnin sem hrindir plottinu af stað og allar senur sem tengja stúlkuna Öbra og óþokkann Rósu, en Rebecca Ferguson er mjög fín í því hlutverki og í raun áhugaverðasta persónan í allri myndinni. Gallinn er að skuggi kvikmyndarinnar The Shining svífur yfir vötnum allan tímann, hljóðrásin endurnýtir stöðugt stef úr gömlu myndinni á hátt sem er alveg á skjön við hversu frumlega tónlistin var notuð á sínum tíma, og tilvísanir í stíl Kubricks og eftirhermuleikarar bæta litlu við öðru en að minna mig á hvað sú mynd var góð og fá mig til að vilja bruna heim og skella henni í tækið.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Átta myndir sem hefðu átt að vinna Óskarinn

Bókmenntir

Skelkaður King kemur bókagagnrýni til bjargar

Kvikmyndir

Keyptu kvikmyndaréttinn af King á dollar

Sjónvarp

Ekki fyrir myrkfælna