Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Frambjóðendur segja ákvörðun Ólafs ekki óvænta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson og Andri Snær Magnason segja að ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að hætta við framboð sitt hafi ekki komið þeim á óvart. Guðni segir að menn þurfi ekki annað en að skoða nýársávarp forsetans. Andri Snær segir eitt víst - eitthvað stórkostlega óvænt eigi eftir að koma í ljós í næstu viku. Halla Tómasdóttir segir að þessi ákvörðun forsetans hafi legið í loftinu.

Ólafur Ragnar sendi frá sér yfirlýsingu í hádeginu í dag þar sem hann sagðist vera hættur við að bjóða sig fram í 6. sinn. Þróunin í forsetakosningunum hefur óneitanlega verið forvitnileg. Eftir að Ólafur upplýsti að hann hygðist áfram gefa kost á sér hættu nokkrir frambjóðendur við. 

Í gærmorgun upplýsti Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra,  að hann ætlaði að gefa kost á sér. Og í dag kom síðan ný könnun MMR sem leiddi í ljós að Guðni Th. Jóhannesson nýtur yfirburðafylgis, hefur 59,2 prósent, Ólafur Ragnar hafði misst nærri helming síns fylgis og Andri Snær Magnason fór úr tæpum 30 prósentum niður í 8 prósent.  

Davíð Oddsson var með lauslega 10 prósent út frá þeim upplýsingum sem komu fram í könnun MMR eftir að hann tilkynnti um framboð sitt.

Andri Snær segist í samtali við fréttastofu telja að umfjöllun um fjárhagsmálefni forsetafrúarinnar og tengsl við Panama-skjölin hafi haft áhrif á ákvörðun Ólafs.  Og hann telur að skoðanakannanir eigi eftir að breytast.  Sú nýjasta hafi leitt í ljós hvern kjósendur hafi talið líklegastan til að fella Ólaf Ragnar. Nú sé Ólafur horfinn á braut, nýr frambjóðandi kominn fram og því eigi þetta eftir breytast mikið.

Guðni Th. Jóhannesson segir að þetta sé merki þess hvað þetta er spennandi og skemmtileg kosningabarátta. Hann segir að ákvörðun Ólafs Ragnars hafi ekki komið sér á óvart - sérstaklega miðað við andann í nýársávarpi forsetans. „Hver forseti sem tekur við ætti að fagna því ef Ólafur lætur að sér kveða á sviði Norðurslóða og endurnýjanlegrar orku. Vonandi lætur hann til sín taka á þessum vettvangi með svipuðum hætti og Vigdís Finnbogadóttir með íslenska tungu.“

Halla Tómasdóttir segir að sér hafi fundist þessi ákvörðun forsetans liggja í loftinu síðan í gær. Þetta sýni síbreytilegt landslag. Það breyti því þó ekki að forsetakosningarnar snúast um val milli fortíðar og framtíðar - þær séu val framtíðarinnar. Hún telur ótímabært að túlka niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar MMR í ljósi tíðinda síðustu daga. 

Fréttastofa reyndi að ná tali af Davíð Oddssyni. Hann sagði í samtali við visir.is að þessi ákvörðun hefði ekki komið sér á óvart. „Nei, ekki endilega miðað við hvernig hann tjáði sig í gær þá fannst mér þetta frekar líklegra heldur en hitt.“

Sturla Jónsson segir að hann virði ákvörðun Ólafs og að hún hafi ekki komið honum neitt sérstaklega á óvart í ljósi þess hversu mjög hefur verið vegið að forsetanum að undanförnu. Hann kveðst ekki vita hvernig hann eigi að taka nýrri skoðanakönnun MMR.  Könnun sem gerð var á vef Útvarps Sögu hafi sýnt að hann hafi notið meiri stuðnings en aðrir frambjóðendur.