Framandi ferðalag gallabuxna

Mynd: EPA / EPA

Framandi ferðalag gallabuxna

04.02.2020 - 12:41
Þú átt án efa í það minnsta einar gallabuxur en hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hvaðan þær koma? Leið þeirra inn í skápinn þinn er nefnilega ekki jafn einföld og þú gætir kannski haldið. Karen Björg sagði frá ferðalagi gallabuxna í tískuhorni vikunnar.

Karen Björg Þorsteinsdóttir skrifar:

Við erum stödd í Xintang héraði í suðvesturhluta Kína. Nánar tiltekið á bómullarekru. Mörg hundruð vinnutæki silast áfram í sólinni, slá bómullarstráin og binda í rúllur, ekki ólíkt og á túni á Íslandi. 

Þessi bómull á að fara í alls konar föt, rúmföt og handklæði svo dæmi séu tekin en um það bil 8,3 fermetrar, sem er eins og stærðin á ágætis herbergi, af ekrunni fara í að gera einar gallabuxur. Til þess að rækta bómull á þessum 8,3 fermetrum þarf um átta þúsund lítra af vatni. Ræktun bómullar er ein sú ósjálf­bær­asta sem til er. 

Bómullin er flutt í gallabuxnaverksmiðju í sama héraði. Þar er stelpa á lélegum launum, ein af 220 þúsund starfsmönnum, sem býr þær til. Hún gæti verið fullorðin en hún gæti líka verið ung þar sem þau yngstu sem vinna í verksmiðjunni eru bara 10 ára. Þegar búið er að sauma buxurnar er bætt við tölum og rennilás sem búin eru til annars staðar í Kína og flutt til héraðsins.

Svo eru gallabuxurnar litaðar. Því einhvern tímann ákvað einhver að hinar klassísku gallabuxur skyldu vera bláar. Þá tekur annar starfsmaður við. Sá er á hærri launum vegna þess hversu mengandi það er að lita gallabuxur og stjórnendur verksmiðjunnar fengju ekki nægan starfskraft ef þau byðu ekki hærri laun. Einstaklingurinn sem litar þessar gallabuxur hefur orðið fyrir svo mikilli mengun að hann er hættur að finna lykt og hefur misst heyrn vegna þess hvað hávaðinn frá vinnuvélunum er svæsinn. Þá eru hverfandi líkur á því að hann geti nokkurn tímann eignast börn.

Litarefninu og klórnum sem eru notuð til að lita buxurnar er síðan skolað beint út í á sem rennur um héraðið. Hún er löngu orðin blá að lit og ekkert líf í henni að finna lengur. Þarna, í Xintang, eru búnar til 300 milljónir gallabuxna, einar af hverjum þrennum sem framleiddar eru í heiminum. 

Þessum gallabuxum er pakkað og þær seldar út í heim fyrir að meðaltali 11 dollara. Svo eru þær merktar merkjum eins og Forever21 eða Mango og eru seldar fyrir töluvert hærra verð. Þetta er ferðalag einna gallabuxna. Ætla má að þeim verði hent eftir stuttan tíma, annað hvort af því að þær endast ekki lengi eða vegna þess að þær þykja ekki lengur í tísku.

Þú getur hlustað á tískuhorn vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan.