Einar Már Jónsson sagnfræðingur í París segir að Frakkar séu skotmörk hryðjuverkamanna vegna sögulegra tengsla sinna við Arabaheiminn, þar sem þeir hafi verið nýlenduveldi. Hann segir afar óljóst hvað forseti Frakklands eigi við þegar hann talar um að Frakkland eigi í stríði. Það hafi ekki verið upplýst hvort Frakkar áætli að stórauka hernað sinn í Sýrlandi. Ef þingið samþykki tillögu Frakklandsforseta um þriggja mánaða neyðarlög, megi búast við að lögregla fái stórauknar valdheimildir, bæði til að handtaka menn og halda þeim vikum saman, og til að banna samkomur og fundahöld svo dæmis séu nefnd. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur segir að í Arabaheiminum sé í sífellt meiri mæli litið á vesturlandbúa sem hræsnara, þeir kippi sér ekki upp við að sömu öfl og frömdu voðaverkin í París fremji fjöldamorð í Líbanon eins og gerðist á fimmtudaginn, daginn fyrir hryðjuverkin í París. Spegillinn ræddi við þau og Þorfinn Ómarsson, upplýsingafulltrúa Flóttamannaráðs Evrópu í Brussel.
Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.