Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fræsöfnun hjálpar skógum að stækka og binda

15.10.2019 - 18:50
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Almenningur getur hjálpað við endurnýjun og stækkun skóga með því að tína fræ og sá í mold. Skógarvörður segir að frætínsla gæti orðið gott og gagnlegt haustsport fyrir fjölskylduna. Nú í haust getur fólk hjálpað Landgræðslunni að safna birkifræi og Skógræktinni að safna könglum stafafuru.

Í skógræktinni á Hallormsstað er fræjum safnað með skipulögðum hætti á haustin enda eru fræin verðmæt. Auðvelt er að tína birkifræ og æskilegt að tínt sé af hávöxnum og beinstofna trjám.

„Þá er í rauninni bara að fara og finna tré þar sem er birkifræ í og tína en þú þarft að passa að þú sért í leyfi með að fá að tína á svæðinu. En svo er að tína í poka og þurrka. Það er mjög mikilvægt að þurrka fræið strax. Síðan er að geyma það á köldum og rakafríum stað fram á vor og þá er hægt að fara að sá því út í móa og mela. Þetta getur verið fjölskyldusport. Þið getið tekið svæði í fóstur og sáð í það. Frá svona september október er akkúrat tíminn sem við tínum fræ. Síðan er bara að fá leyfi til þess að sá á hina og þessa staði,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað. Einnig má sá birkifræinu á haustin.

Landgræðslan, Olís og Hekluskógar hafa í haust staðið fyrir söfnun á birkifræi sem sáð verður um land allt næsta vor. Fræið nær ekki að spíra í algrónu landi og má róta með fætinum til að það komist í mold. Þá er Skógræktin nú í átaki að safna könglum stafafuru. Greitt er fyrir hvert kíló köngla en þeir sem vilja safna af stafafuru verða að hafa samband við Skógræktina fyrst. Þekkja þarf kvæmið og uppruna trjánna sem tínt er af.

Ófáir lindifurukönglar lenda í klóm músa

Það er reyndar samkeppni um könglana, sérstaklega lindifurukönglana og þeirra gómsætu hnetur. „Mýsnar þær eru mjög mikið fyrir lindifuruna því það er svo stórt fræið, eða kímið er svo stórt. Það líða oft ekki nema svona 2-3 dagar frá því að köngullinn fellur af lindifuru og þar til mýsnar eru búnar með hann. Hann er bara orðinn að engu. Eftir hvasst veður verður maður að drífa sig út í skóg ef maður ætlar að ná lindifurukönglum," segir Bergrún Arna.

Víða má sjá sjálfsáða lindifuru og sumstaðar margar ungar plöntur í hnapp. Mýsnar hjálpa stundum til við að sjá fræjunum. „Þær búa sér til forðabúr af lindifurufræjum fyrir veturinn og svo ef músin finnur ekki holuna sína eða drepst eða eitthvað þá spírar upp lindifuruþyrping. Það geta verið upp undir 20 plöntur sem eru á leiðinni upp á sama stað. Þar hefur músin verið búin að gera sér forðabúr,“ segir Bergrún Arna. Fræ stafafuru og fleiri greinitrjáa  þurfa að frjósa yfir veturinn, að fá vetrarörvun, til að geta spírað. 

Sjá má upplýsingar og leiðbeiningar um landsöfnun á birkfræi á vef Olís.

Upplýsingar um söfnun á stafafurukönglum má fá hjá Skógræktinni og myndband um landgræðslu með stafafuru má finna á vef Skógræktarinnar.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV