Fræðsla um námsframboð of lítil

15.02.2018 - 14:31
Mynd með færslu
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki neitt Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Lítil- og tilviljanakennd náms- og starfsfræðsla á þátt í hinu mikla brotthvarfi úr framhaldsskólum hér, segir Kristjana Stella Blöndal, dósent við Háskóla Íslands. Það séu engin geimvísindi að þeir sem velji nám sem höfðar ekki til þeirra séu líklegri til að hætta. Fleiri en 100 námsbrautir eru í boði í framhaldsskólum og gífurlegt framboð í Háskólum.

Rætt var við Kristjönu Stellu í Samfélaginu á Rás eitt í gær og í dag er hún að ræða um brottfall á málþingi á vegum félags náms- og starfsráðgjafa  

Norræna ráðherranefndin birti nýlega skýrslu þar sem borin er saman staða skólamála á Norðurlöndunum. Mjög dökk mynd er dregin upp af íslensku skólakerfi í skýrslunni og er m.a. bent á að brottfall úr skóla sé langmest hér á landi af Norðurlöndunum.

Meira en 100 námsbrautir í boði

Kristjana Stella  segir að við 23 ára aldurinn hafi um 30%  hætt í skóla. Hún segir að nemendur grunnskóla séu iðulega spurðir að því í hvaða skóla þau ætli en ekki í hvaða nám. „Við sjáum að þeir sem að eru að velja nám sem höfðar ekki til þeirra eru líklegri til að hætta. Það eru engin geimvísindi þar á ferðinni.“ 
 
Náms- og starfsval sé orðið miklu flóknara en það var. „Ef við hugsum bara hvað er í boði hér á háskólastigi hjá okkur það er ekkert smá. Ef við hugsum um hvað er í boði á framhaldsskólastiginu þá erum við að tala um meira en 100 námsbrautir. Þetta er frábært. Það er rosalegt val en það er erfitt að velja.“
 
Stella segir auk þess sé vinnumarkaðurinn mjög ósýnilegur ungu fólki. Mörgum finnist hann snúast um að sitja við tölvur inni í einhverju húsi. Sinna þurfi náms- og starfsfræðslu miklu betur. Finnar hafi verið í fararbroddi á þessu sviði. Þetta snúist ekki bara um að gefa út bækling heldur innihald og að fjalla um nám og störf á dýptina.  

Lítil og tilviljanakennd námsfræðsla

„Hjá okkur hefur vantar mjög mikið upp á. Það er mismunandi hvernig þetta er gert þessi náms- og starfsfræðsla. Mér skilst að hún sé bara meira og minna mjög lítil og tilviljanakennd. Það er kveðið á um hana í aðalnámskrá en hún er ekki komin. Við viljum fá hana sem hluti af stundaskrá og snemma.“ 
 
Stella  segir að þetta snúist ekki bara um nemandann heldur líka samspil hans við umhverfið.  

„Við erum að tala um stuðning frá fjölskyldunum. Við erum að tala um stuðning frá kennurunum. Þetta er rosalega mikilvægt fyrir nemendur auðvitað. Þeir hvetja hver annan. Við erum að tala um metnað og við erum að tala um námsvalið og hversu viss eru þau að þau séu á réttum stað.“
 

Náms- og starfsfræðsla þarf að byrja miklu fyrr

Stella segir að undirbúa þurfi skólaskilin vel. Börnin séu að velja í fyrsta sinn þegar þau ljúka 10. bekk. „Þetta þarf auðvitað að undirbúa. Við erum með ótrúlega síbreytilegan atvinnumarkað  [...]   Það er svo margt í boði og það eru svo margar breytingar framundan.  En við þurfum að undirbúa þetta val mjög vel og þá þarf þekkingu bæði sjálfsþekkingu og þekkingu á umhverfinu   Og það þarf að byrja fyrr, miklu fyrr og kerfisbundi.“ 
 

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi