Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fræðsla og rannsóknir gegn myglu

20.08.2019 - 05:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aukin fræðsla og meira fé til rannsókna á sviði byggingarmála eru meðal þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til að vinna gegn myglu í húsnæði á Íslandi. Ekki er talin þörf á umfangsmiklum lagabreytingum. Þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um úrbætur á sviði byggingarmála vegna myglusvepps.

Álfheiður vildi vita hvaða tillögur starfshóps um endurskoðun á lögum og reglum á sviði byggingarmála með tilliti til myglusveppa og tjóns af völdum þeirra hafi komið til framkvæmda. Starfshópurinn var skipaður árið 2014 af þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra. Hann átti að endurskoða lög og reglugerðir á sviði byggingarmála með tilliti til myglusvepps, þar á meðal þær kröfur sem gerðar eru til byggingarvara og við mannvirkjagerð. Niðurstaða hans var að ekki væri þörf á umfangsmiklum lagabreytingum, heldur lægju tækifærin í aukinni fræðslu, leiðbeiningum, menntun fagaðila og auknum rannsóknum sem leitt gætu til nýrra og bættra vinnubragða.

Mannvirkjastofnun sinnir fræðslu

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskaði eftir því við Mannvirkjastofnun að beina þeim fyrirmælum til byggingarfulltrúa að leggja aukna áherslu á að kröfum varðandi þök og drenlagnir verði framfylgt. Eins að aukin áhersla verði lögð á að byggingar- og úttektaraðilar meti rakaástand byggingarefna og byggingarhluta áður en þeim sé lokað. Í svari félags- og barnamálaráðherra segir að Mannvirkjastofnun hafi staðið fyrir fræðsluerindum um raka og myglu á reglulegum fundum með byggingarfulltrúum undanfarin ár. Skoðunarbækur hafa verið yfirfarnar og aukin áhersla lögð á atriði sem varða eftirlit með þáttum sem geta haft áhrif á raka og myglu.

Mannvirkjastofnun myndar Vatnsvarnarbandalagið ásamt fagaðilum, Nýsköpunarmiðstöð, tryggingafélögum og fleirum. Bandalagið hafði frumkvæði að því að námskeið um frágang votrýma væri kennt við Iðuna - fræðslusetur. Eins eru námskeiðin Raki og mygla í húsum I, II og III kennd við Iðuna - fræðslumiðstöð. Þau eru ætluð fagaðilum sem fást við raka og myglu í húsum.

Leita leiða til að styrkja rannsóknir

Mannvirkjastofnun veitti Nýsköpunarmiðstöð 11 milljóna króna styrk til að vinna að rannsókn á gæðum innilofts og myglu ásamt tillögum til úrbóta. Því verkefni á að ljúka fyrir lok þessa árs. Mannvirkjastofnun, Nýsköpunarmiðstöð, Íbúðalánasjóður og Samtök iðnaðarins hafa í samvinnu við Rannís leitað leiða til að auka fjáragn til byggingarrannsókna. Eins hefur Mannvirkjastofnun átt í viðræðum við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík um mögulegar rannsóknir á sviði byggingareðlisfræði.

Heildarendurskoðun á reglugerð um hollustuhætti

Næstu mánaðamót á Umhverfisstofnun að vera búin að skila umhverfis- og auðlindaráðuneytinuu tillögu að nýrri reglugerð um hollustuhætti. Starfshópur skilaði tillögum að stefnu og áhersluatriðum heildarendurskoðunar reglugerðarinnar í maí í fyrra. Þar er meðal annars lagt til að í forgrunni verði að reglugerðin sé sett til að vernda og viðhalda lýðheilsu og lífsgæðum almennings með áherslu á viðkvæma hópa og forvarnir.