Fræddi og skemmti án þess að vera kjánalegur

Mynd með færslu
 Mynd: Getty Image - CD

Fræddi og skemmti án þess að vera kjánalegur

13.06.2019 - 14:18
Það muna eflaust einhverjir eftir tölvuleiknum Tímaflakkaranum sem kom út árið 1998. Leikurinn átti að kenna krökkum Íslandssögu en hafa á sama tíma skemmtanagildið í fyrirrúmi.

Leikurinn gekk út á að spila sem persónan Denni sem finnur hálsmen sem gerir honum kleift að ferðast aftur í tíma. Hann ferðast á fjögur mismunandi tímabil. Denni breytist til dæmis í Vífil sem var annar þræll Ingólfs Arnarsonar, Gissur Einarsson sem var fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi og konu sem hét Sigrún og var fórnarlamb í Tyrkjaráninu sem átti sér stað á Íslandi á fyrri helmingi 17. aldar. Á hverju tímabili er ákveðinn söguþráður, eins og með Vífil sem var þræll Ingólfs Arnarsonar, sem þurfti að hjálpa honum að finna öndvegissúlurnar og koma upp kofa þar sem Reykjavík er núna og í gegnum þetta tímaflakk lærðu notendur um Íslandssögu.

Vilhelm Neto og Fjölnir Gíslason fjölluðu um fyrsta tölvuleikinn á íslensku í hlaðvarpsþættinum Já OK! þar sem þeir skoða alla skrýtnu hlutina sem voru einu sinni aðalmálið á Íslandi en hafa síðan horfið.

Hlustaðu á þátt vikunnar í spilaranum en Já OK! er á dagskrá í streyminu á ruvnull.is alla miðvikudaga klukkan 21 og er eftir það aðgengilegur á vefnum og í öllum helstu hlaðvarpsveitum.