Fracking tímaskekkja

21.03.2013 - 19:24
Gasvinnsla með bergbroti kann að gjörbreyta orkumálum heimsins. Margir vara þó við umhverfisáhrifum og kolefnismengun. Aukin gasvinnsla er tímaskekkja, segir talsmaður samtakanna Food and Water Watch.

Fjármunum, sem settir eru í þróun gas- og olíuvinnslu, ætti frekar að verja í að þróa endurnýjanlega orkugjafa eða orkusparandi tækni. Þetta segir Geert Decock, sem starfar fyrir frjáls félagasamtök - Food and Water Watch. Það eru bandarísk félagasamtök, ótengd flokkum eða fyrirtækjum, sem berjast fyrir öruggu neysluvatni og matvælum. Decock starfar fyrir samtökin í Evrópu. Hann segir helsta áhyggjuefnið vera að með fracking verði hægt að vinna miklu meira af jarðefnaeldsneyti úr jörðu. Á tíma mikilla loftslagsbreytinga, sé það allt annað en góð hugmynd. Þá hefur hann verulegar efasemdir um að áhrif af fracking og aukinni gasnotkun, hafi verið nógu vel rannsökuð. 
Geert Decock, segir að það hafi ekki verið rannsakað nógu vel hvaða mengun verði við gasvinnslu. Fullyrðingar um að gas mengi miklu minna en kol, séu ekki byggðar á nógu traustum grunni. Þegar gas sé unnið úr sandsteini me bergbroti eða fracking, losni mikið af mengandi lofttegundum. Því sé óvíst hvort gas, unnið úr sandsteini, mengi jafnvel meira, valdi frekar loftslagsbreytingum heldur en það að brenna kolum.
Auk þessa, eru fjölmargir aðrir vankantar á gasvinnslu með fracking. Mikið vatn þarf til að sprengja bergið, það er megnað með efnum. Gasvinnsla í stórum stíl byggir auk þess á því að þúsundir borholna séu boraðar, gífurlegt landflæmi lagt undir vinnsluna og borað aftur og aftur, ólíkt hefðbundinnni gasvinnslu.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi