Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frá kreppu til gullaldar

Mynd: Sinfonia.is / Ari Magg / Sinfonia.is

Frá kreppu til gullaldar

07.11.2019 - 17:39

Höfundar

Sinfóníuhljómsveit Íslands undirbýr nú ferðalag um þrjár leiðandi menningarborgir Þýskalands og Austurríkis. Ferðlagið hefst á mánudag en tónleikar kvöldsins í Hörpu verða í beinni útsendingu á Rás 1. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason en Víkingur Heiðar Ólafsson leikur einleik í píanókonserti hans, Processions frá árinu 2009. Þeir félagar segja að margt hafi breyst í íslensku tónlistarlífi og þjóðlífi síðan þá.

Píanókonsertinn Processions eftir Daníel Bjarnason var frumfluttur skömmu eftir hrun, í febrúar árið 2009. Daníel stjórnaði hljómsveitinni þá í fyrsta skipti, Víkingur Heiðar lék einleik, en þá blésu allt aðrir vindar í íslensku tónlistarlífi og þjóðlífi en nú.  Friðrik Margrétar- Guðmundsson, kynnir kvöldsins, ræddi við Daníel og Víking.

„Ef við berum þetta saman, þetta var í Háskólabíói, enginn hljómburður og 40 ára gamalt píanó sem var löngu komið fram yfir síðasta söludag. Þetta er í miðri búsáhaldabyltingunni. Ég man nú ekki alveg hvernig þetta var, hvort að fólk var að mæta af Austurvelli og beint í bíóið,“ segir Víkingur Heiðar og bætir við:

 „Það loguðu eldar í samfélaginu, Harpa var bara draumur og það voru háværar raddir um að sá draumur yrði aflagður. Þetta voru skrýtnir tímar. Maður má líka ekki gleyma því að það var talað um að þetta yrði ekki eitthvað 5 eða 10 ára tímabil heldur yrðum við með skuldaklafa næstu 40 árin, að það væri búið að dæma allt manns fullorðins líf í efnahagslega örbirgð. Auðvitað leit það þannig út, svo trúir maður ekki hvað við höfum verið heppin og lánsöm með ýmsa meðvinda.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sinfonia.is
Víkingur og Daníel, hressir (og ungir), að loknum frumflutningi 2009.

Taugar þandar

Báðir hafa þeir Víkingur og Daníel notið fádæma velgengni undanfarin misseri. Skemmst er að minnast þess að Víkingur var á dögunum útnefndur listamaður ársins hjá breska tónlistartímaritinu Gramophone og Fílharmoníusveit Los Angeles flutti nýlega sérstakt afmælisverk sem sveitin pantaði af Daníel Bjarnasyni og hvorki fleiri né færri en þrír heimsfrægir hljómsveitarstjórar stjórnuðu. 

Tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Daníel Bjarnason er sammála píanistanum um að margt hafi breyst á síðustu 10 árum: 

„Þetta voru rosalegir óvissutímar og skrýtið ástand í samfélaginu. En í því myndast ákveðinn kraftur og þessi konsert er kannski saminn inn í það ástand þó það sé erfitt að segja nákvæmlega hvað það þýðir. Ég leyfði mér kannski eitthvað sem ég hefði annars verið hræddari við. Það voru allar taugar þandar og mér fannst að þetta skipti máli.“

Mynd með færslu
 Mynd: Sinfonia.is
Allt á fullu á æfingu í vikunni.

Menningarmiðstöðvar Evrópu

En nú eru allt aðrir tímar og hljómsveitin leggur af stað næstu viku í spennandi tónleikaferðalag til Berlínar, München og Salzburg. Hljómsveitin ferðast með tvær ólíkar efnisskrár en einleikari á ferðalaginu ásamt Víkingi verður króatíski hornleikarinn Radovan Vladkovich, sem einnig leikur á tónleikum kvöldsins, hornkonsert nr. 3 eftir Wolfgang Amadeus Mozart. 

Víkingur segir að eftirvænting sé í hópnum nú þegar styttist í ferðlagið. „Þetta hefði aldrei verið hægt fyrir 10 árum ekki bara peningalega heldur listrænt. Staða íslenskrar tónlistar og íslensks tónlistarfólks hefur breyst mikið til hins betra. Við eigum svo góða hljómsveit að það er synd hvað hún spilar lítið úti, það er sem betur fer að breytast og áhrif þess verða ekki ofmetin. Við erum að fara í þessar þrjár menningarborgir, leiðandi borgir. Það er gaman fyrir hljómsveitina en líka fyrir fólkið í þessum borgum að þessi samskipti eigi sér stað. Það er gullöld íslensks tónlistarlífs, það hefur aldrei áður verið neitt nálægt þessari stemningu, ef við nýtum það ekki núna þá veit ég ekki hvenær við eigum að gera það.“

Daníel er sammála þessu og bendir á að nú fari Sinfóníuhljómsveit Íslands í ferðalag til útlanda með Íslendinga í framvarðarsveitinni, sem tónskáld, stjórnanda og einleikara: 

„Við eigum fólk á heimsmælikvarða eins og Víking og við erum líka að flytja verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur sem hefur verið flutt um allan heim. Svo er þetta ótrúlega skemmtilegt fyrir mig því ég debúteraði með hljómsveitinni þarna fyrir 10 árum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég stjórnaði hljómsveitinni og í fyrsta skipti sem hún flutti verk eftir mig og nú, 10 árum seinna, er ég að fara með hljómsveitinni og Víkingi á þetta ferðalag sem aðalgestastjórnandi sveitarinnar.“

Hljómsveitin mun endurtaka leikinn annað kvöld en vegna eftirspurnar verður blásið til aukatónleika annað kvöld, 8. nóvember. Allar upplýsingar má finna á vef hljómsveitarinnar en þar má líka horfa á streymi af tónleikunum á morgun. Útsending kvöldsins á Rás 1 hefst með upphituninni, sem heyra má hér að ofan kl. 19 en tónleikarnir sjálfir hefjast hálftíma síðar. Kynnir í útsendingu er Friðrik Margrétar- Guðmundsson. 

Þess má geta að RÚV mun miðla ferðalagi sveitarinnar í miðlum sínum á næstu dögum og ráðgert er að Sjónvarpið sýni á nýju ári sjónvarpsmynd um ferðalagið sem má fyllilega telja til merkis um þá gullöld sem nú er í gangi í sígildri og samtímatónlist.