Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Frá hálfri milljón upp í rúma tvo milljarða

15.11.2017 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Upphæðirnar í skattalagabrotum sem héraðssaksóknari ákvað að fella niður frekar en að gefa út ákæru nema allt frá hálfri milljón króna upp í rúma 2,2 milljarða. Héraðssaksóknari hefur fellt niður 62 mál sem skattrannsóknarstjóri vísaði til embættisins á árunum 2012 til 2016. Málin felldi héraðssaksóknari niður á grundvelli dóms Hæstaréttar í september síðastliðnum og dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í maí. Samkvæmt því er ekki hægt að refsa fólki tvisvar fyrir sama mál.

Samkvæmt yfirliti hinna niðurfelldu mála sem birtist á vef Skattrannsóknarstjóra eru málin 62 mjög frábrugðin, bæði hvað upphæðir varðar og tilefni. Umfangsmesta málið hljóðar upp á rúma 2,2 milljarða króna og skiptist gróflega til helminga í vanframtaldar tekjur og vanframtaldar fjármagnstekjur. Það er vegna greiðslna frá erlendu félagi, vaxtatekna og hlutabréfaviðskipta. Þrjú önnur mál hljóða upp á meira en hálfan milljarð, eitt málanna snýr að offramtöldu stofnverði hlutabréfa og annað að tæpum 800 milljónum króna í vanframtaldar fjármagnstekjur af framvirkum samningum og viðskiptum með hlutabréf. Þá vantaldi einn hátt í 900 milljónir króna í tekjur vegna kaupa á hlutabréfum á lægra verði en gangverði, vanframtalinna stjórnarlauna og óheimillar úthlutunar úr lögaðila.

Upphæðir í sautján málum af 62 hljóða upp á meira en hundrað milljónir króna.

34 málanna eru vegna tekna af störfum erlendis, aðallega sjómanna sem unnu við strendur Afríku.

Alls nema vanframtöldu tekjurnar og fjármagnstekjurnar af málunum 62 tæpum tíu milljörðum. Þar af er hátt í helmingur vegna fjögurra mála.