Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fötluðum börnum innflytjenda sé mismunað

Mynd með færslu
 Mynd:
Hætta er á að fötluð börn innflytjenda fari á mis við ýmis réttindi vegna þess að kerfið mætir þeim ekki sem vera skyldi. Þetta segir framkvæmdastjóri Þroskahjálpar. Fjölmenningarþing Reykjavíkurborgar var haldið í fimmta sinn í Ráðhúsinu í dag. Fötluð börn af erlendum uppruna, börn innflytjenda og unglingar af erlendum uppruna voru meðal þess sem rætt var á málstofum.

Búin að glíma lengi við kerfið

„Það þarf að gera ýmislegt vegna þess að þetta er mjög berskjaldaður hópur sem er mikil hætta á að fari á mis við alls kyns réttindi sem hann á. Það gerist ekki nema kerfið lagi sig að þörfum þessara hópa og þessara barna,“ segir Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar. Tölur bendi til þess að fötluð börn innflytjenda séu stór hópur en félagsþjónusta og skólakerfi á Íslandi hafi orðið til í mun einsleitara samfélagi. Hættan sé sú að börnin sæti mismunun, sem er alvarlegt mannréttindabrot.

„Þarna var, ég ætla ekki að segja örvænting, en þarna voru einstaklingar sem voru búin að glíma við kerfið og haft mjög mikið fyrir því í langan tíma og fannst eins og kerfið væri ekki að sinna þeim með eðlilegum hætti,“ segir Árni um málstofuna í dag. „Auðvitað getur maður ekki dregið of stórar ályktanir af lýsingum einstaklinga en lýsingunum ber mjög saman. Það er augljóst að við þurfum að finna leiðir til að mæta þessum hópi betur ef við ætlum að stuðla að því að börn af innflytjendabakgrunni verði hér einstaklingar sem hafi sömu tækifæri og aðrir í þessu landi.“

Rödd innflytjenda þurfi að heyrast

„Við þurfum að heyra rödd innflytjenda. Það eru orðin yfir þrjátíu þúsund manns sem búa á Íslandi af erlendum uppruna, átján þúsund hér á Reykjavíkursvæðinu. Tilfinning okkar er, og líka innflytjenda, að það sé ekki mikið leitað til þeirra með þeirra mál,“ segir Joanna Marcinkowska, verkefnastjóri hjá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem skipuleggur viðburðinn í samstarfi við fjölmenningarráð.

„Ég held það séu enn þá miklir þröskuldar alls staðar. Fyrst og fremst aðgengi að upplýsingum og líka venjur, hvernig hlutir eru gerðir í samfélaginu, oft eru misskilningar og ég held við þurfum að gera betur,“ segir Joanna. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Joanna Marcinkowska segir að innflytjendur mæti víða þröskuldum.
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV