Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fóstra bókaskápa í Breiðholti

17.11.2018 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Fimm foreldrafélög hafa hleypt af stokkunum samfélagsverkefni undir yfirskriftinni Bókabrölt í Breiðholti. Foreldrafélögin fóstra hvert sinn bókaskáp sem verða staðsettir á fimm stöðum í Breiðholtinu en þar verður hægt að gefa bók og þiggja bók. Í hillurnar má gefa allar tegundir bóka, á öllum tungumálum.

Bókabrölti í Breiðholti er ekki einungis ætlað að setja skemmtilegan svip á hverfið heldur einnig stuðla að því að efla lestraráhuga og lestrarfærni meðal fullorðinna og barna. Er það haft að leiðarljósi að lestrarfyrirmyndir heima fyrir hafi mikil áhrif á bókaáhuga barna, segir Ingibjörg Hrund Þráinsdóttir, sem er í stjórn foreldrafélags Ölduselsskóla. Verkefnið verður í fyrstu tilraun til eins árs.

Allar bækur velkomnar

„Hugmyndinni skaut upp í samstarfi þessara fimm öflugu foreldrafélaga í Grunnskólum Breiðholts. Markmiðið er að fá bæði börn og foreldra til að lesa meira og því eru hillurnar ekki eingöngu ætlaðar barnabókum. Allar bækur eru velkomnar, hvort sem á íslensku eða öðrum tungumálum. Ef þú lest góða bók viltu kannski að aðrir njóti hennar líka og gefur henni því framhaldslíf á öðru heimili. Við vonumst eftir að það verði mikið gegnumflæði, margir komi með bækur og margir taki, en það þarf ekki að koma með bækur til að fá að taka sér eintök."

Hillurnar eru í Breiðholtslaug, Hólagarði, Mjóddinni, ÍR heimilinu og Seljakjörum. Fyrirmyndir að slíku fyrirkomulagi eru víða erlendis, oft úti á götuhornum.

Mynd með færslu
 Mynd:

Í síðustu viku var blásið til viðburðar í Mjódd og verkefnið formlega sett af stað. Foreldrafélögin hafa meðal annars látið útbúa bókamerki merkt Bókabrölti í Breiðholti sem verða aðgengileg í bókahillunum á meðan birgðir endast.

Auður Aðalsteinsdóttir