Forysta geri hreint fyrir sínum dyrum

Mynd með færslu
 Mynd:
Forysta Framsóknarflokksins þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum um hvort flokkurinn ætli að vera áfram flokkur samvinnu og umburðarlyndis eða fara yfir í þjóðernishyggju. Þetta segir Ómar Stefánsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi flokksins í Kópavogi, sem hefur sagt sig úr flokknum.

Ómar sem lét af embætti bæjarfulltrúa í Kópavogi eftir kosningar og sagði sig úr Framsóknarflokknum að því loknu. Hann segist ekki hafa verið orðinn á sömu línu og flokkurinn í ýmsum efnum í landsmálum en umræða um mosku og múslima hafi riðið baggamuninn.

Telur forystuna hafa leyft umræðunni að þróast
„Lokahnykkurinn er náttúrulega þessi ákvörðun í Reykjavík að fara út í þessa þjóðernispopúlistaumræðu um moskuna. Þá sá maður tóninn sem var gefinn í Reykjavík og hvernig forystan tæklaði það; formaður, varaformaður og ritari,“ segir Ómar. Forystumenn flokksins hafi í fyrstu komið sér undan því að svara. „Það held ég meðal annars að hafi verið það að forystan hafi ekki gripið, viljandi, inn í þessa atburðarás heldur leyft henni að þróast til að sjá hvort hún næði að tryggja borgarfulltrúa," segir Ómar sem upplifir þetta með sama hætti og Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins. Hann lýsti skömmu eftir kosningar yfir áhyggjum af þróun mála innan Framsóknarflokksins, eftir framgöngu oddvitans í Reykjavík og viðbrögð formanns flokksins.

„Ég tel að forystan þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum, sem er gríðarlega mikilvægt, hvort við séum ennþá flokkur samvinnu og umburðarlyndis eða hvort við ætlum að fara í þessa þjóðernishyggju sem sýnir sig í öðrum löndum að getur tryggt fimm til tíu prósenta fylgi við flokk,“ segir Ómar.

Öfgum mætt með öfgum
Hann tekur þó undir það með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, að ráðist hafi verið að flokknum vegna málsins.

„Ég er algjörlega sammála þessu, því ég er búinn að vera í flokknum það lengi. Það eru búnar að vera mjög andstyggilegar árásir á okkur í gegnum tíðina. Þar sem öfgarnar voru þar var brugðist við af sama öfgahætti eins og forystan í Reykjavík sló þessu fram. Eða þessi aukasetning sem fylgdi þessum skipulagsmálum. Það lýstu sér alveg fordómarnir þar í gegn. Að þetta hafi byggt á reynslu það segir manni margt, það er ágætt að fordómarnir séu byggðir á reynslu. Þessar aukasetningar sem fylgdu svo oft og iðulega kölluðu á þetta, þessi sömu viðbrögð. Síðan náði umræðan aldrei neinum þroska.“

Ein sagði sig úr flokknum og annar af lista
Jenný Jóakimsdóttir, sem skipaði annað sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Hafnarfirði, sagði sig úr flokknum nokkrum dögum eftir kosningar. Hún sagði ástæðuna þá að sér ofbyði tal sumra flokksfélaga sinna og að hún væri ósátt við að forystan hefði enn ekki fordæmt það á skýran hátt. Hún sagði í samtali við fréttastofu í morgun af afstaða hennar væri óbreytt.

Hreiðar Eiríksson, sem var í fimmta sæti á lista Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, lýsti því yfir fyrir kosningar að hann styddi ekki listann en er áfram félagi í Framsóknarflokknum. Hann sagði í morgun stöðu sína óbreytta frá því fyrir kosningar.

Veðjað á rangan hest
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í síðustu viku að þeir sem hefðu kosið Framsókn í borgarstjórnarkosningum af andstöðu við múslima hefðu veðjað á rangan hest. Hún sagði að málið hefði snúist um skipulagsmál að sínu mati en viðurkenndi að hafa hlaupið á sig og sagðist sjá eftir því. Hún taldi að málið yrði rætt á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins 11. júlí næstkomandi.

[email protected]

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi