Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forval fyrir forsetakosningar hefst formlega í dag

Mynd: EPA-EFE / EPA
Forval fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum hefst formlega í dag þegar íbúar Iowa velja sér forsetaframbjóðendur. Allt frá árinu 2000 hafa þeir frambjóðendur Demókrata sem unnið hafa í Iowa endað sem forsetaefni flokksins.

Undirbúningur er í fullum gangi en íbúar Iowa ríða á vaðið þegar forval Demókrata og Repúblikana er annars vegar. Það er þónokkuð langur vegur fyrir höndum fyrir frambjóðendur því frambjóðandi Demókrata verður ekki valinn formlega fyrr en á landsfundi í júlí. 

Tólf eru eftir af þeim tuttugu og átta sem upphaflega freistuðu þess að verða forsetaframbjóðandi Demókrata. Samkvæmt skoðanakönnunum á Bernie Sanders mestu fylgi að fagna í Iowa, en á hæla hans kemur Joe Biden. Í þriðja sæti er Pete Buttigieg og því fjórða Elizabeth Warren. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík/RÚV

Á landsvísu er fylgið í skoðanakönnunum örlítið öðruvísi. Þar er Biden með mest fylgi, Sanders í öðru sæti og Warren því þriðja. Í fjórða sæti er Mike Bloomberg, sem gefur ekki kost á sér í Iowa. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík/RÚV

Allt frá árinu 2000 hafa þeir frambjóðendur Demókrata sem unnið hafa í Iowa endað sem forsetaframbjóðendur flokksins. Það er þó nóg eftir, og forval fer fram í öllum ríkjum Bandaríkjanna fram á sumar. 

Öllu minna spennandi er forval Repúblikana að þessu sinni. Reyndar er Donald Trump ekki einn í framboði, þeir eru tveir sem hafa boðið fram krafta sína á móti honum, en þeir eru þó ekki taldir eiga mikla möguleika gegn sitjandi forseta. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík/RÚV

Forvalið fer fram á tvo vegu, annars vegar er hefðbundin atkvæðagreiðsla og hins vegar öllu óhefðbundnara val, eins og í Iowa. Þá skipta kjósendur sér upp í hópa og fara á staði merkta frambjóðendum á kjörstað. Þeir frambjóðendur sem ná undir 15 prósentum viðstaddra á sín svæði heltast úr lestinni. Niðurstöður í Iowa ættu að liggja fyrir síðar í kvöld

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV