Förum ekki til að vinna heldur senda jákvæðni

21.02.2016 - 18:54
Mynd: RÚV / RÚV
Við förum ekki til Svíþjóðar til þess að komast í úrslit eða vinna Eurovision heldur til þess að senda jákvæð skilaboð, segir Greta Salóme Stefánsdóttir, sigurvegari Söngvakeppninnar. Greta Salóme vann með laginu „Hear them calling“.

Greta segir að það hafi komið sér á óvart að vinna Söngvakeppnina í gærkvöldi.  Hún sæki innblástur í lagið til Íslands: „Það er mikil jörð í laginu,“ segir Greta Salóme og bætir við að hún hafi unnið að því með frábærum hópi fólks. 

Eurovision-keppnin verður haldið í Svíþjóð 14. maí. Hvernig leggst það í Gretu? „Svíþjóð leggst bara mjög vel í mig, ég bara hlakka til, ég er bara ekki farin að hugsa svo langt,“ segir Greta og hlær. 

Greta er ekki viss hvort hún breyti einhverju í flutningum í stóru keppninni. „Okkur langaði bara til þess að senda skilaboð með þessu lagi,“ segir Greta Salóme og bætir við að mikið að bæði jákvæðum og neikvæðum áhrifum dynji á fólki. „Alveg sama hvernig fer og alveg sama hvað gerist þá skiptir svo ótrúlega miklu máli að hlusta á það jákvæða og hrista hitt af sér,“ segir Greta. 

„Ég fór ekki í Söngvakeppnina til þess að vinna,“ segir Greta og bætir við: „Það verður það sama uppi á teningnum í stóru keppninni. Við förum ekki til þess að komast í úrslit eða til þess að vinna, við förum bara til þess að senda skilaboð og skila okkar eins vel og við getum,“ segir Greta Salóme. 

Mannréttindaumræða á alltaf rétt á sér
Þetta er í annað skiptið sem Greta Salóme verður fulltrúi Íslands í Eurovision. Árið 2012 keppti hún með lagið Never Forget sem hún söng með Jónsa. Þá fór keppnin fram í Bakú í Aserbaídsjan. Þá spannst mikil umræða um mannréttindabrot þarlendra stjórnvalda. Hvernig leið Gretu Salóme að vera allt í einu komin í mannréttindaumræðu? „Mannréttindaumræða á alltaf rétt á sér og ég held núna að við tökum enn fastar á þeim málum og eins og ég segi þessi skilaboð, ég held að við fókuserum frekar á þau en lagið og reynum að koma eins jákvæðum skilaboðum til skila eins og við mögulega getum,“ segir Greta Salóme.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi