Fóru vanbúin með börnin á Langjökul

26.08.2014 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég bara spurði hann hvað hann væri að gera. Hann svaraði: Er ég kannski að gera eitthvað sem ég á ekki að vera að gera?“ segir Arngrímur Hermannsson, framkvæmdastjóri ICE Explorer, sem býður ferðir á Langjökul á átta hjóla trukki eða snjóbíl á gaddabeltum.

Honum var heldur brugðið þegar hann mætti erlendum ferðamönnum á jöklinum, manni og konu með þrjú börn. Fólkið var, eftir því sem Arngrímur segir, komið langt upp á jökul og var statt við Jaka við Geitlandsjökul fyrir ofan Húsafell. Maðurinn hafði ekið eftir vegi sem þjónustuaðilar nota til að ferja ferðamenn á svæðið.

„Þetta er eitt besta aðgengið að Langjökli og verður til þess að þegar fólk er farið að ferðast mikið á eigin vegum á bílaleigubílum reynir það að gera allt sjálft. Það datt alveg af mér andlitið þegar ég mæti þessum bílaleigubíl langt inni á jökli. Þangað hafði hann náð að spóla sig. Við höfum sagt að það þurfi að setja upp aðvörunarskilti þar sem menn eru varaðir við því að ferðast vanbúnir um jökulinn,“ segir Arngrímur. Á jöklinum séu vatnssvelgir sem nái 100-200 metra ofan í jökulinn sem getur orðið mjög háll í rigningu. Fólkið fór úr bílnum með börnin. Arngrímur segist oft hafa hjálpað fólki í vandræðum á jöklinum.

„Ég sagði honum að hann hefði sloppið við jökulleirinn á leiðinni að jöklinum. Þar hefði bíll fest sig daginn áður. Svo hefði rignt fyrir þremur dögum og jökulinn væri sleipur. „Ég ætla að drífa mig niður sagði hann,“" segir Arngrímur Hermannsson, framkvæmdastjóri ICE Explorer.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi