Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fóru á kostum í Hemma Gunn lagi

Mynd: Ruv / Ruv

Fóru á kostum í Hemma Gunn lagi

10.08.2016 - 13:56

Höfundar

Retro Stefson og Grísalappalísa mættust í æsispennandi hörkuleik í fyrri undanúrslitaleik Popppunkts árið 2016. Báðar hljómsveitir reyndust mjög vel að sér í íslensku popp og rokksögunni og renndu sér í gegnum spurningar Dr. Gunna án teljandi erfiðleika. Menn byrjuðu af krafti og kláruðu vísbendingaspurningarnar tvær í fyrstu tilraun, Grísalappalísa þekkti Svavar Knút í fyrstu vísbendingu og Retro Stefson þekktu lagið Í sól og sumaryl í fyrstu vísbendingu.

Spennan hélst allt til loka

Grísalappalísa tóku mikinn kipp og náðu frumkvæði í bjölluspurningum og hélt því allt fram að popphjólinu en þar gerðu Retro Stefson liðar mjög vel og minnkuðu muninn niður í eitt stig fyrir lokalið þáttarins sem voru valflokkarnir. Þar ákváðu Retro Stefson að byrja á að velja sér spurningu sem veitti þeim eitt stig en Grisalappalísa tók tvö. Í næstu spurningu klikkuðu Retro Stefson á að þekkja The Surpremes og það varð til þess að Grísalappalísa hélt forystunni allt til enda, bætti aðeins í og endaði með að vinna leikinn 42 – 37. Þetta er gríðarlega gott skor og eitt það hæsta sem sést hefur í Popppunkti.

Sungu Út á gólfið með nýju sniði

Hljómsveitirnar spreyttu sig á klassískum íslenskum popplögum í þættinum. Retro Stefson gerði sína útgáfu af Stóð ég úti í tunglsljósi en Grísalappalísa og söngvari þeirra Gunnar Ragnarsson fóru á kostum í sinni útgáfu af lagi Hemma Gunn, Út á gólfið.

Grísalappalísa eru því komnir í úrslit og mæta þar sigurvegurum úr leik Amabadama og FM Belfast en þær sveitir mættust í undanúrslitum á föstudagskvöldið.