Forsvarsmenn KMF biðjast afsökunar

Mynd með færslu
 Mynd:

Forsvarsmenn KMF biðjast afsökunar

09.06.2013 - 17:31
Forsvarsmenn KMF hafa beðist afsökunar á því sem fór úrskeiðis á hátíðinni. Þau 129 tónlistaratriði, sem gert hafi verið ráð ráð fyrir á hátíðinni, hafi reynst þeim ofviða um leið og fyrstu vandamálin skutu upp kollinum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem þeir hafa sent fjölmiðlum.

Hátíðin hefur verið harðlega gagnrýnd um helgina fyrir skipulagsleysi og fyrir að aðstandendurnir hafi ekki staðið við gerða samninga. Fjöldi íslenskra listamanna afboðaði komu sína á hátíðina, meðal annars Bubbi Morthens, KK og Steed Lord, og í öllum tilvikum var skipulagningu hátíðarinnar kennt um.

Aðrir listamenn, svo sem Skálmöld, spiluðu en liðsmenn þungarokkssveitarinnar voru harðorðir í garð hátíðarinnar í yfirlýsingu sem hljómsveitin sendi frá sér. Þar stóð meðal annars að forsvarsmenn hátíðarinnar væru fyrst og fremst dónar.

Á þessu biðjast þeir Ólafur Geir Jónsson og Pálmi Þór Erlingsson afsökunar, þeir segja í yfirlýsingu sinni að staðan hafi undið uppá sig sem hafi gert það að verkum að erfitt hafi reynst að ná í þá. „Sem aftur orsakaði fleiri uppákomur og vandamál. Á þessu biðjumst við innilegrar afsökunar.“ Ólafur Geir og Pálmi Þór eru aðalmennirnir á bakvið hátíðina.

Engu að síður segjast þeir Ólafur Geir og Pálmi Þór ekki vera af baki dottnir, þeir ætli að gera sitt besta til að Keflavík Music Festival geti orðið árlegur viðburður um ókomin ár.