Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Forstjóri LSH: Fjárlagafrumvarpið vonbrigði

14.12.2017 - 18:55
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Landspítalinn þarf 600 milljónir til viðbótar, til þess eins að halda sjó. Þetta segir forstjóri spítalans. Fjárlagafrumvarpið sé því vonbrigði. Hann á þó von á því að framlög til spítalans verði aukin í meðförum Alþingis.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður sjúkrahússþjónusta styrkt um 8,5 milljarða króna á næsta ári. Stór hluti þess rennur til Landspítalans.

„En ekki nóg að okkar mati,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri spítalans. „Við töldum að við þyrftum um það bil 1,8 milljarða í rekstur til viðbótar, bara til að halda því í gangi sem við erum þegar að gera. Það sem við erum að fá í rekstri, samkvæmt þessu frumvarpi, er um það bil 1,2 milljarðar í besta falli. Þannig að þar munar 600 milljónum. Með það í höndunum erum við ekki að blása til stórsóknar.“

Á von á auknum framlögum

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir um einum milljarði króna í uppbyggingu og viðhald á húsakynnum spítalans.

„En samkvæmt samkomulagi við fyrri heilbrigðisráðherra erum við búin að skuldbinda okkur til að endurbyggja hús sýklafræði og barna- og unglingageðdeildar. Það kostar milljarð þannig að þá er sá peningur farinn.“

Páll segir það jákvætt að spítalinn fái 600 milljónir til tækjakaupa, hann hafi hins vegar þurft milljarð. „Þannig að þetta dugar ekki einu sinni til að mæta þeirri vaxandi eftirspurn sem við vitum að er ár frá ári að aukast,“ segir Páll. „Og ef þetta verður lokaniðurstaðan, þá eru það vissulega vonbrigði.“

Áttu von á að framlögin verði aukin?

„Já ég á von á því.“

Ítarlegt viðtal við Pál má sjá í spilaranum hér að ofan.